Rækjur í forrétt, kjúklingaréttur og Marskaka í eftirrétt

Matgæðingarnir Elvar og Anna. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Elvar og Anna. Aðsend mynd.

Matgæðingar 33. tölublaðs Feykis árið 2018 voru þau Anna Birgisdóttir og Elvar Hólm Hjartarson á Sauðárkróki. Anna segir að Elvar sé ekki gefinn fyrir að elda en verji frekar tíma í hestamennsku sem dæturnar stunda með honum. Sjálf segist hún hafa gaman af að elda og prufa eitthvað nýtt og er m.a. í matarklúbbi sem hefur fengið að prófa réttinn sem hún gefur okkur uppskriftina að og vakti hann góða lukku. „Ekki er Marskakan síðri, hún er sælgæti,“ segir Anna.

FORRÉTTUR
Salat með rækjum og fetaosti (fyrir 6)

2 hausar lambhagasalat eða u.þ.b. ⅓ haus jöklasalat (ísberg)
1 stk. rauðlaukur
½ agúrka
½ græn paprika
1 krukka fetaostur í kryddlegi
1 dl furuhnetur
2 dl brauðteningar
300 g risarækja
salatsósa að eigin vali

Aðferð:
Skolið og rífið salatið, skerið laukinn í þunnar sneiðar og agúrku og papriku í bita. Hellið kryddleginum af fetaostinum og blandið honum saman við grænmetið og rækjurnar í stórri skál. Stráið brauðteningunum yfir um leið og salatið er borið fram með salatsósunni.

AÐALRÉTTUR
Kjúklingaréttur (fyrir 6)

4 kjúklingabringur
1 dós Cambell sveppasúpa
1 haus brokkolí
1 dós sýrður rjómi
2 tsk. sítrónusafi
2 tsk. karrý
3 msk. smjör
u.þ.b. ½ pakki Ritzkex
rifinn ostur

Aðferð:
Hrærið saman súpunni, sýrða rjómanum, karrý og sítrónusafa.
Léttsteikið bringurnar og saltið og piprið. Setjið þær í eldfast mót, soðið brokkolí ofan á og hellið sósunni yfir. Ritz kexi, osti og bræddu smjöri hrært saman og sett ofan á.
Sett inn í ofn við 200° C í 30 mínútur.
Gott er að hafa hrísgrjón og hvítlauksbrauð með.

EFTIRRÉTTUR
Marsterta

4 eggjahvítur
1 dl flórsykur
1 dl púðursykur
2 bollar Rice krispies

Aðferð:
Eggjahvítur, flórsykur og púðursykur þeytt vel saman og Rice krispies bætt út í á eftir. Sett í tvö form og bakað í 40 mínútur við u.þ.b. 150° C.

Krem

2 Mars
60 g smjör
4 eggjarauður
3 matskeiðar flórsykur

Mars og smjör brætt saman og látið kólna. Eggjarauður og flórsykur þeytt saman. Súkkulaðinu blandað saman við. 
1 peli þeyttur rjómi settur á milli og kremið ofan á. Sett í frost og tekin út hálftíma áður en hún skal borðuð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir