Ofnbakaður þorskur með pistasíum og ís í ætri skál
„Aðalrétturinn er í boði Eldhússagna (eldhussogur.com) og er þetta einn besti fiskréttur sem við höfum bragðað. Ekki skemmir heldur fyrir að auðvelt er að slá um fyrir sér og setja matinn á disk og bera fram þannig að líti út eins og meistarakokkar hafi framreitt hann,“ sögðu matgæðingar 32. tbl. Feykis 2016, þau María Eymundsdóttir og Pálmi Jónsson á Sauðárkróki.
Aðalréttur
Ofnbakaður þorskur með pistasíum, sætkartöflumús og sojasmjörsósu fyrir 6
Sætkartöflumús
1 kg sætar kartöflur, skrældar og skornar í bita
2-4 kartöflur, skrældar og skornar í bita
1 rautt chili, fræhreinsað
1 lime, safinn
2 msk smjör
salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Sæt- og venjulegu kartöflurnar soðnar þangað til þær eru mjúkar með chili, annaðhvort skornu í tvennt eða í litla bita eftir því hvað kartöflustappan á að vera sterk. Fyrir kisurnar er betra að hafa chilið í stórum bitum svo hægt sé að taka það úr áður en kartöflurnar eru stappaðar. Lime, smjör, salt og pipar bætt út í og öllu stappað saman.
Þorskur og pistasíusalsa
1200 g þorskhnakkar eða flök
salt og pipar eftir smekk
7 msk saxaðar pistasíur
6 msk sítrónusafi og hýði af 1 sítrónu
2 msk olía
2dl fersk söxuð steinselja, ekki verra að rækta hana í eldhúsglugganum
½-1 chili, fræhreinsað og fínsaxað
Aðferð:
Þorskurinn er skorinn í bita og raðað í eldfast mót. Kryddaður með salti og pipar eftir smekk. Fyrir þá sem hafa ekkert sérstaklega gaman af að saxa mat í höndunum þá er alveg eins gott að setja steinselju, pistasíur, chilli og sítrónusafann og hýðið í matvinnsluvél eða nota töfrasprota. Þegar allt er komið í hentuga bita er matarolíunni hrært saman við. Þegar salsað er tilbúið er því dreift yfir fiskinn og sett í ofn sem búið var að forhita upp í 220°C. Eldað í u.þ.b. 12-15 mínútur.
Sojasmjörsósa
9 msk smjör
3 skarlottlaukar, fínt saxaðir
3 hvítlauksrif fínt söxuð
2 tsk rautt chilli, fínt saxað
6 msk sojasósa
3 msk steinselja, fínt söxuð
Aðferð:
Smjörið er brætt í potti og látið krauma við lágan hita í u.þ.b. 15 mínútur og froðan veidd af. Afganginum af hráefnunum bætt saman við rétt áður en maturinn er borinn fram.
Gott er að elda réttinn í sömu röð og uppskriftirnar eru gefnar upp og ætti þá enginn að þurfa að lenda í stressi eða bíða eftir að einhver hluti réttarins verði tilbúinn.
Eftirréttur
Ís í ætri skál
Þar sem að aðeins þarf að nostra við aðalréttinn fannst okkur tilvalið að hafa eftirréttinn einfaldan og fljótlegan og í anda árstíðarinnar sem er núna.
Ísskál
Afgangur af pönnukökum, eða vöfflum, má alveg vera frá deginum áður. Tekin er ein pönnukaka og sett ofan á litla skál eða glas þannig að miðjan á pönnukökunni sé nokkurn veginn á miðju glasinu. Sett í örbylgjuofn á hæstu stillingu í 1-3 mínútur eða þangað til pönnukakan er orðin það hörð að hún getur staðið sjálf. Gerðar eru jafnmargar skálar og fjöldi þeirra sem er í mat.
Þegar ísskálin er orðin köld eru settar 1-2 ískúlur af uppáhaldsísnum í hverja skál, ber að eigin smekk og dass af hunangi dreift yfir. Ekki skemmir fyrir að vera búinn að kíkja í berjamó til að geta nýtt glæný blá- og krækiber og fyrir þá sem eru með vott af grænum fingrum er algjör snilld að eiga hindberjarunna úti í garði þar sem er sólríkt og ágætt skjól til að tína í eftirréttinn.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.