Matgæðingur vikunnar - Kalt nautakjöt í japönskum stíl og humarhalar

Sandra og Árni Pétur Gunnsteinsson ásamt dætrunum þremur. MYND AÐSEND
Sandra og Árni Pétur Gunnsteinsson ásamt dætrunum þremur. MYND AÐSEND

Matgæðingur í tbl 3 er Sandra Gestsdóttir frá Tröð í Skagafirði. Sandra býr í Hafnafirði ásamt eiginmanni og þremur dætrum. Sandra er lyfja- og líftæknifræðingur og vinnur hjá þróunardeildinni hjá Össuri ehf. 

„Ég tel sjálfa mig nokkuð flinka í eldhúsinu, fylgi sjaldan uppskriftum bókstaflega og get oft nýtt það sem er til hverju sinni á heimilinu til að bera fram góða máltíð. Mögulega eitthvað sem maður lærir á því að alast upp með þá fyrirmynd sem mamma mín er. Mig langar að deila mínum uppáhaldsuppskriftum! Þetta er matur sem er upplagt að gera þegar maður vill gera extra vel við sig og sína,“ segir Sandra. 

RÉTTUR 1
Kalt nautakjöt í japönskum stíl
Þessi réttur er bragðmikill og ferskur. Hef einnig prófað hann úr afgangs nautakjöti og elgskjöti og aldrei bregst það hversu bragðgóður hann er.

    góð fitusprengd nautalund
    kórianderfræ
    ferskt rósmarin
    salt & pipar
    oregano (þurkað eða ferskt)
    engiferrót
    rautt chilli
    grænt chilli
    radísur
    ferskt kóriander
    sesamolía
    japönsk soja
    2 lime

Aðferð: Kórianderfræin sett í mortel og mulin vel. Rósmarín saxað og oregano ef notað er ferskt. Þessu er blandað saman í kryddblöndu ásamt
salti og pipar. Dreifið kryddblöndunni á bretti og veltið nautalundinni upp úr kryddinu og þrýstið því vel utan á kjötið. Okkur finnst best að
setja kjötið í Sous Vide, þá er best að finna leiðbeiningar m.v. stærðina á lundinni á netinu. Eftir það skellum við lundinni í stuttan tíma á funheitt grill til að brúna. Einnig er hægt að elda í ofni með kjöthitamæli og brúna svo á vel heitri pönnu. Mikilvægt að láta kjötið standa í minnst 15 mínútur eftir eldun. Því
næst er kjötið skorið í örþunnar sneiðar og dreift jafnt á stórt fat. Engiferrót er rifin með rifjárni, chilli eru fræhreinsaðir og sneiddir fínt. Radísurnar eru sneiddar í mjóar sneiðar og kóríanderstilkarnir eru skornir langsum (ath. að það má nota stilkana líka, ekki bara blöðin). Þessu er öllu dreift yfir kjötfatið.
Sesamolíu og japanskri soja er blandað saman í 1:1 hlutfalli (u.þ.b. 1/2 til 1 dl af hvoru) og út í þetta er bætt safa úr tveim lime ávöxtum. Dressingu er dreift jafnt yfir allt kjötið en gott að hafa auka dressingu til hliðar þegar borið er fram.

Meðlæti: Þetta er hægt að borða eitt og sér, en okkur fínnst líka gott að borða með þessu grænt salat, t.d. spínat, stökka papriku, ristaðar furuhnetur og avokado.

RÉTTUR 2
Humar með sítrónusmjörsósu
Þessi réttur hentar einnig vel sem forréttur og þarf þá að minnka hráefnamagnið en hérna er miðað við aðalrétt. Fólk hefur mismunandi skoðun á hvernig á að undirbúa eða hreinsa humarhala og ég ætla ekki að hafa leiðbeiningar fyrir það með þessari uppskrift.

Undirbúið 12-15 meðalstóra humarhala á mann.

Marinering:
    1/2 bolli ólífuolía
    2 msk. sítrónusafi
    2 msk. fersk basilika
    3 hvítlauksgeirar

Aðferð: Blandið öllu saman og penslið á humarinn. Okkur finnst best að grilla humarinn á skelinni á útigrilli, en það er einnig hægt að elda í ofni.

Sítrónusmjörsósa:
    1/4 dl hvítvín
    safi úr hálfri sítrónu
    100 g smjör
    saffran
    ítalsk sjávarréttakrydd
    salt og pipar

Aðferð: Sjóðið hvítvín og sítrónusafa niður með kryddinu og hrærið svo smjörinu saman við.

Meðlæti: Okkur finnst best að borða einfalt salat og nýbakað brauð með.

Salat: spínat, ristaðar hnetur og jarðarber.

Brauð:
    20 g ger
    6 dl vatn
    1 msk. salt
    1 msk. matarolía
    900 g hveiti

Aðferð: Hnoðið allt saman í hrærivél. Látið hefast í 2 klst. í skálinni. Skiptið svo í fimm hluta, rúllið út og mótið snittubrauð. Þetta er látið hefast á plötunni í 1 klst. undir viskustykki. Skerið svo nokkrar rákir í hvert brauð með beittum hníf, penslið yfir með eggi eða vatni. Bakið brauðin í 10–12 mínútur í 250°C heitum ofni. Til að fá stökka skorpu á brauðið er gott að setja ílát með vatni neðst í ofninn.

Verði ykkur að góðu!

Sandra skorar á vini sína, Lindu Fanneyju og Jóhannes, að taka við keflinu. Þau koma með uppskriftir í tbl 5 sem verður gefið út 2. febrúar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir