Lummur, lummur og fleiri lummur
Þar sem Lummudagar verða í Skagafirði um helgina er tilvalið að rifja upp nokkrar lummuuppskriftir sem birtust í Feyki fyrir tveimur árum síðan.
Lummur eru góðar með svo ótal mörgu; til dæmis strásykri, sultu og þeyttum rjóma eða vanilluís og berjum og ekki síst löðrandi í hlynsýrópi. Eða jafnvel bara smjöri og osti. Eftirfarandi eru þrjár mismunandi uppskriftir af lummum sem gefa vatn í munninn.
Hinar gömlu og góðu:
Klassískar lummur
6 dl hveiti
2 msk hrásykur
2 dl haframjöl
½ tsk salt
½ tsk lyftiduft
1 tsk vanillusykur
1-2 egg
½ dl matarolía
um 4 dl mjólk
1 dl rúsínur eða súkkulaðirúsínur (dökkar)
Aðferð:
Mjólk, olía og egg þeytt létt saman í skál. Þurrefnum blandað út í og hrært þangað til deigið er kekkjalaust. Bakað í feiti á vel heitri pönnu og borið fram með strásykri og/eða sultu.
Í hollari kantinum:
Lummur með hafragraut
3 dl heilhveiti
4 msk hunang
3 tsk vínsteinslyftiduft
½ tsk maldon salt
2½ dl hafragrautur
4 msk kókosolía
2 egg
1½ dl kókosmjólk
Aðferð:
Gott er að nýta afgangana af morgunmatnum í þessa uppskrift sem er í senn meinholl og saðsöm. Allt sett saman í skál og hrært, deigið á að vera í þykkara lagi. Steikist á tefflon pönnu.
Úr Sætmeti án sykurs og sætefna:
Banana-kotasælulummur
2 bananar, vel þroskaðir
200 ml kotasæla
50 g smjör, brætt, og meira til steikingar (einnig má nota olíu)
1 egg
½ tsk vanilluessens
1 tsk lyftiduft
¼ tsk salt
100 g heilhveiti, eða eftir þörfum
Aðferð:
Þessi girnilega og holla uppskrift er úr smiðju Skagfirðingsins Nönnu Rögnvaldar, úr í bókinni Sætmeti án sykurs og sætefna.
„Vel þroskaðir bananar, sem farnir eru að sortna, gera þessar lummur sætar og góðar og það er í rauninni ekki þörf á neinu með þeim. Mér finnst samt gott að strá muldum pekan- eða valhnetum yfir og hafa e.t.v. sýrðan rjóma eða meiri kotasælu með, eða jafnvel ber. – Ég hef líka prófað að nota haframjöl (hafragrjón fínmöluð í matvinnsluvél) í stað heilhveitis, svo og blöndu af haframjöli og möndlumjöli; líklega mætti nota eintómt möndlumjöl líka.
Maukaðu bananana í matvinnsluvél eða stappaðu þá með gaffli og blandaðu kotasælunni saman við. Hrærðu svo bræddu smjöri, eggi og vanillu saman við og síðan lyftidufti, salti og eins miklu heilhveiti og þarf til að soppan verði hæfilega þykk. Láttu hana bíða smástund.
Hitaðu svolitla olíu á pönnu og settu soppuna á hana með matskeið eða lítilli ausu. Steiktu lummurnar við meðalhita í um 2 mínútur, eða þar til þær hafa tekið fallegan lit að neðan. Snúðu þeim þá og steiktu þær í 1−2 mínútur á hinni hliðinni.“
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.