Litlar kjötbollur, Pavlova og fljótlegt brauð

Matgæðingarnir Matthildur og Ármann Óli. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Matthildur og Ármann Óli. Aðsend mynd.

Feykir.is dustar rykið af gömlum matgæðingaþáttum. Í 29. tbl. ársins 2018 sáu þau Ármann Óli Birgisson og Matthildur Birgisdóttir á Blönduósi um matreiðsluna.

„Það er fátt skemmtilegra en að gæða sér á góðum mat í góðra vina hópi en stundum er einfaldleikinn góður og þegar annríkið tekur völdin getur verið gott að eiga mat í kistunni. Því ákváðum við að bjóða upp á einfalt, fljótlegt og þægilegt þessa vikuna og síðast en ekki síst gott. Það getur verið ansi þægilegt að eiga góðar kjötbollur til að grípa upp úr kistunni eftir annasaman dag. Því er aðalréttur vikunnar bestu kjötbollur sem við höfum smakkað. Við hreinlega fáum ekki nóg af þessum og það besta við þær er að stelpurnar okkar elska þegar þetta er borið á matarborðið. Við reynum að eiga alltaf kjötbollur í frystinum,“ sögðu Matthildur og Ármann. 

AÐALRÉTTUR
Litlar kjötbollur 

1 kg nautahakk (eða það hakk sem til er í kistunni)
1 bréf af púrrulaukssúpu
1 pakki Ritzkex  

Aðferð:
Myljið Ritzkexið mjög smátt og blandið saman við hakkið ásamt súpuduftinu. Því næst er að gera litlar bollur, sirka munnbitastærð, og steikja síðan á pönnu.

Sósa (miðast við 500 g af bollum): 

1-2 flöskur Heinz Chili sósa
3-4 msk. rifsberjahlaup 

Þessu blandað saman og hitað að suðu. Sósunni síðan hellt yfir kjötbollurnar og þær hitaðar í ofni í 20-30 mín við 180°C.   

Húsfreyjunni þykir heldur skemmtilegra að baka en elda og er því vel við hæfi að hafa tvo rétti sem þarf að baka. Fyrst er það Pavlovan sem hefur ansi oft verið borin á borð á heimilinu, það er frekar fljótlegt að hrista þessa fram úr erminni og bera fram í eftirrétt.

EFTIRRÉTTUR
Pavlova

4 stk. eggjahvítur
200 g sykur
1 tsk. borðedik
½ tsk. kartöflumjöl  

Aðferð:
Byrjið á því að stífþeyta eggjahvíturnar og að því loknu er sykrinum bætt saman við og stífþeytt aftur. Blandið síðan edikinu og kartöflumjölinu varlega saman við með sleif.
Þessu er síðan smurt á bökunarpappír sem búið að er strika 21 cm hring í þvermál á.
Bakað við 130°C í u.þ.b. 1 klst og 15 mín.  

Til að fullkomna Pavlovuna þarf góðan rjóma.

Rjómi:
2½ dl rjómi
1½  tsk. sykur
½ tsk. vanilludropar

Öllu blandað saman þeytt og síðan smurt ofan á Pavlovuna. Skreytið Pavlovuna síðan að vild með góðum berjum.

Hver elskar ekki nýbakað brauð! Nýbakað brauð með smjöri og osti er bara með því betra sem við fáum, enda miklir sælkerar á þessu heimili. Fljótlegt og einstaklega gott brauð.

Réttur 3
Brauð

370 g gróft spelt
1 msk. lyftiduft
1 tsk. sjávarsalt
2 msk. agave sýróp
350 ml möndlumjólk 

Aðferð:
Blandið þurrefnunum saman. Vökvanum síðan bætt við og hrært varlega þangað til deigið er orðið eins og þykkur grautur. Hrærið sem minnst (annars getur deigið orðið seigt og illviðráðanlegt). Bakið í brauðformi í um 45 mínútur við 180°C. Takið þá brauðið úr forminu og bakið í 5-10 mínútur til viðbótar.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir