Matgæðingar vikunnar - Lambaskankar og Toblerone mús
Sara Katrín Stefánsdóttir og Hjörleifur Björnsson eru matgæðingar vikunnar að þessu sinni. Þau eru bæði Skagfirðingar í húð og hár en eru búsett í Kópavoginum ásamt börnunum sínum tveimur, þeim Hinriki og Guðrúnu Katrínu. Sara er geislafræðingur og vinnur á Geislameðferðardeild krabbameina á Landspítalanum og Hjörleifur er pípari og rekur sitt eigið fyrirtæki, Lagnaafl.
,,Þegar skorað var á okkur að koma með uppskriftir í Feyki þá vorum við ekki lengi að ákveða aðalréttinn því þessir lambaskankar eru nokkuð oft eldaðir hér á bæ enda mjög ljúffengir og slá iðulega í gegn. Toblerone músin er svo alltaf mjög klassískur eftirréttur sem klikkar seint, segir Sara."
AÐALRÉTTUR
Hægeldaðir lambaskankar
4 lambaskankar
gulrætur eftir smekk, u.þ.b. 6-7 stk
1 laukur
1 dós niðursoðnir tómatar, gott að hafa niðursoðna cherry tómata
3 msk. rósmarín
salt og pipar
1 ten. kjötkraftur
dass af rauðvíni
smá vatn
Aðferð: Steikið skankana upp úr olíu og saltið þá og piprið. Skerið laukinn og gulræturnar í passlega munnbita og skellið út í pottinn ásamt rósmarín og niðursoðnu tómötunum. Því næst fer kjötkrafturinn og rauðvínsdreitillinn út í og ef ykkur finnst vanta smá vökva upp á, þá er gott að setja smá af vatni. Nú er lokið sett á pottinn og þetta látið malla inni í ofni við 160° í ca. 3 klst. Fínt er að ausa aðeins yfir skankana svona tvisvar sinnum meðan á eldunartímanum stendur. Gott er að bera þetta fram með kúskús.
EFTIRRÉTTUR
Toblerone súkkulaðimús
500 g Toblerone
150 g smjör
4 egg
500 ml stífþeyttur rjómi
Aðferð: Grófsaxið Toblerone og bræðið það yfir vatnsbaði ásamt smjörinu. Þegar þetta er bráðið saman skal taka súkkulaðiblönduna af hitanum og bæta eggjunum út í einu í einu og hræra vel á milli. Þegar eggin eru komin saman við þá er rjómanum bætt varlega við blönduna í nokkrum skömmtum. Skemmti-legt er að skreyta músina með hindberjum og rífa smá af súkkulaði yfir.
Verði ykkur að góðu!
Sara og Hjölli skora á sr. Höllu Rut að vera næsti matgæðingur. Því þar er Halla svo sannarlega á heimavelli enda algjör meistarakokkur!.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.