Lærissneiðar með bláberjasultu og snickersbitar

Matgæðingarnir Böðvar og Ólöf. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Böðvar og Ólöf. Aðsend mynd.

Það voru sauðfjárbændurnir á Mýrum 2 við austanverðan Hrútafjörð, þau Ólöf Þorsteinsdóttir og Böðvar Sigvaldi Böðvarsson, sem gáfu lesendum Feykis sýnishorn af því hvað þeim þykir gott að bera á borð í 19. tbl. ársins 2018. „Við bjóðum upp á lambalærissneiðar og snickersbita sem eru góðir með kaffinu. Uppskriftin af snickersbitunum er tekin af vefnum ljúfmeti. com. Þangað höfum við sótt margar uppskriftir sem eru notaðar aftur og aftur,“ sögðu þau Ólöf og Böðvar. 

AÐALRÉTTUR
Lambalærissneiðar með bláberjasósu

lambalærissneiðar
½ tsk villikrydd (eða önnur kryddblanda)
pipar
salt
1 msk. smjör
150 g sveppir
1 hvítlauksgeiri
2 msk. olía
250 ml rjómi
100 g bláber
e.t.v. sósulitur

Aðferð:
Kryddið lærissneiðarnar með kryddblöndunni, salti og pipar og látið standa í smástund við stofuhita. Saxið sveppina smátt og pressið hvítlaukinn. Bræðið smjörið og látið sveppi  og hvítlauk krauma nokkra stund. Takið sveppina af pönnunni, bætið smjöri á pönnuna og steikið lærisneiðarnar í 3-4 mínúturá hvorri hlið. Setjið sveppina aftur á pönnuna, bætið rjómanum út í og látið  krauma við vægan hita í 5-6 mínútur. Bætið bláberjunum út í og látið krauma í nokkrar mínútur í viðbót. Smakkið sósuna  og bragðbætið eftir þörfum.

KAKA
Snickersbitar

1 krukka hnetusmjör u.þ.b. 350 g
1½ dl sýróp
1 dl sykur
9 dl kornflex
1 tsk. vanillusykur
1 dl kókosmjöl
200 g dökkt súkkulaði

Aðferð:
Bræðið saman í potti hnetusmjör, sýróp og sykur. Þetta á að bráðna saman, ekki sjóða. Takið af hitanum og bætið kornflexi, vanillusykri og kókosmjöli út í blönduna. Setjið í form og látið kólna. Súkkulaðið er brætt og sett yfir þegar blandan er orðin köld. Skerið í bita og njótið. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir