Kjúllaréttur, bananabrauð og ostasalat sem slær í gegn
„Það er ekki hægt að segja að við séum mikið fyrir flóknar uppskriftir eða tímafrekar, við notum yfirleitt bara netið og „googlum“ því sem okkur langar að elda og finnum hentugustu (a.k.a. auðveldustu) uppskriftina og förum eftir henni,“ segja matgæðingarnir í 4. tölublaði Feykis árið 2016, þau Rannveig Aðalbjörg Hjartardóttir og Magnús Ásgeir Elíasson á Stóru-Ásgeirsá í Víðidal.
„Elsta mataruppskrift í handskrifuðu matreiðslubókinni hér er af kjúklingarétti sem klikkar seint en hann eldum við þegar okkur langar að gera vel við okkur í öðru en lambakjöti. Við skellum líka með uppskrift af ostasalati með kotasælu sem slær í gegn við hin ýmsu tækifæri og uppskrift af bananabrauði sem fæstir geta staðist."
Kjúllaréttur
kjúklingabringur (nota oft kjúklingalundir í staðinn)
50 g smjör/smjörlíki
2 dl BBQ sósa
1 dl Soya sósa
1 dl apríkósumarmelaði
100 g púðursykur
Aðferð: Allt nema kjúllinn hitað saman í potti. Kjúllinn steiktur á pönnu og settur í eldfast mót. Sósunni úr pottinum hellt yfir kjúllann í mótinu. Sett í 150°C heitan ofn í a.m.k. 20 mín, þarf lengri tíma ef bringurnar eru mjög þykkar. Langbest að bera fram með hrísgrjónum og góðu salati.
Bananabrauð
1 egg
3 dl sykur (hef verið að prófa mig áfram með að minnka magnið af sykrinum og auka við bananana í staðinn, en er ekki komin með loka niðurstöðu í því máli)
2 bananar (vel stappaðir)
1 tsk salt
½ tsk matarsódi
5 dl hveiti
Aðferð: Þeytið egg og sykur vel saman, maukið bananana og hrærið saman við. Blandið þurrefnunum í skál og hrærið hveitiblöndunni varlega saman við hitt. Sett í form sem rúmar 1½ l (smurt eða klætt að innan með bökunarpappír). Bakað í 45 mín. við 200°C.
Ostasalat (ostasalatið er í raun uppáhalds ostasalat hvers og eins en sýrðum rjóma og majonesi er skipt út fyrir kotasælu).
Í eina stóra dós af kotasælu set ég yfirleitt:
1 Mexikóost
1 piparost
1½ - 2 rauðar paprikur
svolítið af fínt skornum rauðlauk
vel af púrrulauk
og nóg af niðurskornum vínberjum
Aðferð: Þessu er öllu hrært saman og best að láta standa í kæli í nokkra klukkutíma áður en á að bera það fram.
Þetta eru uppskriftir sem allir ættu að ráða við og nýtast vonandi einhverjum.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.