Ítölsk kjúklingasúpa og grillaður ananas með ís
„Hér er smá uppskrift sem er fljótlegt að gera og er alveg rosalega góð. Svakalega holl og matarmikil. Fundum hana upprunalega á eldhússögur.is og eldum hana reglulega. Okkur finnst líka alveg frábært hvað það þarf lítið að vaska upp, það bara fer allt í sama pottinn,“ segja matgæðingar vikunnar, í 35. tölublaði Feykis árið 2015, Karítas Sigurbjörg Björnsdóttir og Sigurður Arnar Björnsson á Sauðárkróki.
Aðalréttur
Ítölsk kjúklingasúpa með tortellini
(fyrir 4-6)
700 g kjúklingur, skorinn í bita
1 gulur laukur, saxaður smátt
3 hvítlauksrif, söxuð smátt
1 stór paprika skorin í bita
1 brokkolíhaus (ca. 250 g), skorinn í bita
1 msk ólífuolía
2 l vatn, (fer aðeins eftir því hvort er notað ferskt eða pakka tortellini, þarf meira vatn ef notað er úr pakka)
3 teningar kjúklingakraftur
2 msk tómatpúrra
salt & pipar
uppáhalds ítalska pasta kryddið þitt
250 g tortellini (t.d. ferskt tortellini með ricotta og basiliku eða frá Barilla með osti)
4 -6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
30 g fersk basilika, söxuð
parmesan ostur, rifinn (hægt að sleppa)
Aðferð:
Laukur, hvítlaukur, paprika og brokkolí léttsteikt upp úr ólífuolíu í stórum potti. Því næst er vatni, kjúklingakrafti, tómatpúrru bætt út í pottinn ásamt kryddinu. Suðan er látin koma upp og kjúklingnum bætt út í. Kjúklingurinn er látinn sjóða í um 7 mínútur. Þá er tortellini, sólþurrkuðum tómötum og 2/3 af basilikunni bætt út og soðið eins lengi og segir til um á tortellini pakkningunni. Smakkað til með kryddinu eftir þörfum. Borið fram með restinni af basilikunni og rifnum parmesan osti ásamt góðu brauði.
Eftirréttur
Grillaður ananas með ís
Í eftirrétt þarf eitthvað létt og ferskt þar sem súpan er mjög matarmikil. Þá er um að gera að skella í grillaðan/ofnbakaðan ananas með ís og svo er alveg nauðsynlegt að láta fylgja með slatta af bræddu súkkulaði.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.