„Hvað er betra á frostköldu vetrarkvöldi en dýrindis lambalæri“

„Á okkar heimili er nú oftast eldað af illri nauðsyn, ekki af því að okkur þyki eitthvað leiðinlegt að borða, heldur af því að við höfum ekkert sérstaklega gaman af að elda. Stundum brettum við þó upp ermarnar og eldum eitthvað þokkalega gott. Við skulum nú ekkert vera að tíunda hvort okkar sér frekar um eldamennskuna, sumum þykir bara einfaldlega meira gaman að ganga frá en öðrum!“ segja matgæðingarnir Fríða Eyjólfsdóttir og Árni Eyþór Bjarkason á Hofsósi sem voru matgæðingar vikunnar í öðru tölublaði ársins 2016. 

„Þó að jólin séu rétt að renna úr hlaði þá ætlum við ekki að fara að bjóða upp á neitt „grænmetissull“, nei, við skulum halda áfram að kýla kviðinn og hvað er betra á frostköldu vetrarkvöldi en dýrindis lambalæri. Við erum afar sjaldan með forrétt en látum samt eina ágæta uppskrift fylgja.“

Forréttur
Rækjuforréttur (fyrir 4) 

400 g rækjur
1 dl tómatsósa
½ rauðlaukur, saxaður
½ rauð paprika, söxuð
1 hvítlauksrif, saxað
¼ dl sérrí
¼ haus jöklasalat
1 kvistur ferskt dill (má sleppa) 

Aðferð:
Blandið lauk, papriku, hvítlauk og sérrí saman við tómatsósuna. Látið standa í kæli í 1-2 klst.  Þá er rækjunum bætt í. Jöklasalatið skorið niður og sett á disk, rækjurnar ofan á og skreytt með fersku dilli. Borið fram með ristuðu brauði og smjöri. 

Aðalréttur
Grátandi lambalæri 

1 lambalæri
olífuolía
6 hvítlauksrif, 2 skorin í ræmur, 4 söxuð
1 msk saxað rósmarín, ferskt (eða 1 tsk þurrkað)
2 msk mulið timjan, ferskt (eða 1 msk þurrkað)
salt og pipar
1½ kg kartöflur, þunnt sneiddar
40 g smjör 

Aðferð:
Nuddið kjötið með olíu. Skerið litlar, djúpar rifur í kjötið og stingið hvítlauksræmunum þar í.  Stráið kryddinu yfir kjötið (líka salti og pipar). Raðið kartöflunum í eldfast fat sem er aðeins lengra en lærið. Stráið salti, pipar og söxuðum hvítlauk yfir kartöflurnar og dreifið smjöri yfir.  Setjið fatið neðst í ofninn og kjötið á grind þar yfir svo kjötsafinn drjúpi á kartöflurnar. (Af þessu er nafnið á uppskriftinni dregið).
Steikið við 225°C í 1½ klst. eða þar til kjötið er hæfilega steikt. Lækkið hitann ef kartöflurnar brúnast of mikið. Hrærið í þeim einu sinni eða tvisvar meðan á steikingu stendur.
Með þessu ber maður fram uppáhaldsmeðlætið sitt og þá sósu sem hugurinn girnist. 

Eftirréttur
Sæluhrollur 

10 plötur After Eight, saxaðar
1 dl sykur
1 box fersk jarðarber, skorin í bita
1 banani, skorinn í sneiðar
1 saxað epli
2 dl þeyttur rjómi 

Aðferð:
Blandið öllu nema rjómanum saman í skál og látið standa í kæli í 10 mínútur á meðan sykurinn bráðnar með ávöxtunum. Skiptið í sex skálar og setjið rjómann ofan á. Borið fram með After Eight sósu. 

After Eight sósa:

9 plötur After Eight
1 eggjarauða
3-4 msk mjólk 

Aðferð:
Bræðið After Eight plöturnar í vatnsbaði. Takið þær af hitanum og bætið eggjarauðunni í.  Þynnið sósuna með mjólkinni. Látið mesta hitann rjúka úr sósunni áður en hún er sett yfir ávextina og rjómann.

Verði ykkur að góðu!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir