Hunangs- og sojagljáður kjúklingur og sænsk Kladdkaka

Matgæðingarnir Sæunn og Brynjar. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Sæunn og Brynjar. Mynd úr einkasafni.

Matgæðingar vikunnar í 23. tölublaði Feykis 2015 voru Sæunn Vigdís Sigvaldadóttir og Brynjar Már Eðvaldsson. Þau buðu lesendum upp á girnilegar uppskriftir af Bruschetta í forrétt, hunangs- og sojagljáðan kjúkling og sænska Kladdköku með karamellukremi í eftirrétt.  

Forréttur
Bruschetta (fyrir 4) 

2 snittubrauð
ólífuolía
salt
4 tómatar
1 rauðlaukur
hnefi af fersku basil
2 kúlur mozzarella ostur 

Aðferð:
Snittubrauð skorin niður og pensluð báðum megin með ólífuolíu, salti stráð yfir og sett í 180°C heitan ofn og látið bakast aðeins eða þar til brauðið er farið að brúnast og orðið stökkt. Tómatar, rauðlaukur og basil skorið smátt og sett í skál. 1 msk af ólífuolíu er bætt við tómatablönduna og saltað eftir smekk. Mozzarella osturinn skorinn í þunnar sneiðar. Ein sneið af osti er sett á brauð og tómatamaukið þar ofan á.

Þessi réttur er einnig tilvalinn sem stakur réttur þegar gesti ber að garði. 

Aðalréttur
Hunangs- og sojagljáður  kjúklingur (fyrir 4) 

5 kjúklingabringur
2 msk soja sósa
3 msk hunang (akasíu)
1 msk ólífuolía
100 gr kasjúhnetur

Aðferð:
Blandið sojasósu og hunangi í skál og hrærið vel saman. Skerið kjúklingabringur í bita og setjið út í blönduna, látið standa í 5 mínútur. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn í við meðalhita í 4-5 mínútur. Hækkið hitann og steikið áfram í 3-5 mínútur. Ef það er mikill vökvi á pönnunni, látið hann þá gufa upp á meðan þið steikið. Setjið kasjúhneturnar út á pönnuna og látið karamellast á pönnunni.

Þessi er afar einfaldur og fljótlegt að elda. Með honum er gott að bera fram hýðishrísgrjón ásamt helling af fersku salati. 

Eftirréttur
Sænsk Kladdkaka með karamellukremi 

100 gr smjör
2 egg
3 dl sykur
1½ dl hveiti
5 msk kakó
2 tsk vanillusykur
salt á hnífsoddi  

Aðferð:
Bakaraofn hitaður í 175°C, undir- og yfirhita. Smjörið brætt. Restin af hráefninu sett í skál og brædda smjörinu bætt út, hrært þar til deigið hefur blandast vel saman. Bakað í smurðu lausbotna formi (um 22 – 24 sm) eða sílikonformi við 175°C í 20 mín. Kökunni leyft að kólna í um 10 mín. 

Karamellukrem:
2 dl rjómi
1 dl sykur
1 dl sýróp
100 g suðusúkkulaði
100 g smjör

Aðferð:
Öll hráefnin, fyrir utan smjörið, sett í pott. Hrært í blöndunni og suðan látin koma upp. Blandan látin malla þar til hún þykknar, tekur ca. 10 mín., gott að hræra svolítið á meðan. Þá er potturinn tekinn af hellunni og smjörinu bætt út í. Hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Gott er að láta kremið standa um stund til þess að það verði aðeins þykkara. Þá er kreminu hellt yfir kökuna og hún látin kólna í ísskáp í um 2-3 tíma. Borin fram með þeyttum rjóma og/eða ís, og jafnvel góðri blöndu af berjum.

Þessi kaka slær alltaf í gegn enda þrusugóð. Tilvalin sem eftirréttur þar sem ein sneið er alveg nóg, svo sæt er hún.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir