Humarsúpa ala Áslaug og Oreo ostakaka
Matgæðingar Feykis í 32. tölublaði ársins 2015 voru þau Áslaug Ottósdóttir og Sigurður Sverrir Ólafur Hallgrímsson frá Skagaströnd. Þau sendu inn girnilegar uppskriftir; humarsúpu að hætti Áslaugar í forrétt, beikon- og piparostafylltan hamborgara í aðalrétt, ásamt uppskrift af heimagerðu hamborgarabrauði, og loks Oreo ostaköku í eftirrétt.
Uppskriftirnar birtast í tveimur hlutum, hér er uppskriftin af humarsúpunni og Oreo ostakökunni en grillborgarinn girnilegi verður í næsta þætti.
Forréttur
Humarsúpa ala Áslaug
1 laukur
1 hvítlaukur
2 dl grænmetissoð
2 dl fisksoð – ég nota kjötkraft
1 dós hakkaðir tómatar
½ msk karrý
½ dós ferskjur
2 dl rjómi
50 gr smjör til steikingar
salt og pipar
humar eftir smekk og /eða annar fiskur
Aðferð: Saxið laukinn og brúnið vel í smjörinu. Maukið tómata og ferskjur í matvinnsluvél. Soðið sett í pott ásamt hvítlauksgeirum (ég mauka þá svo með töfrasprota) og látið sjóða í um 25 mín. Þá er öllu öðru blandað út í nema rjóma og humri. Látið malla vel í um 30-50 mínútur, jafnvel lengur en það þarf að hræra stöðugt í svo brenni ekki við. Þá er rjóminn settur í og hitað að suðu. Síðast er humrinu bætt í rétt áður en borið er fram og JÁ hann er hrár þegar hann er settur út í.
Eftirréttur
Oreo ostakaka
1 ½ - 2 pakkar Oreo kex
1 bolli flórsykur
1 pakki Royal búðingur, vanillu
200 g rjómaostur
1 peli rjómi
1 bolli mjólk
1 tsk vanilludropar
Aðferð: Byrjið á því að taka Royal duftið og hræra það út í mjólkina og vanilludropana og skella því í ísskáp í 5-10 mín. Hrærið saman flórsykur og rjómaost í annarri skál. Rjóminn þeyttur. Oreo kexið sett í blandara eða í matvinnsluvél (eða mulið með gaffli, getur tekið langan tíma). Svo er öllu blandað varlega saman í eina skál fyrir utan Oreo kexið. Kexinu og kökunni blandað til skiptis í form og sett í frysti. Best er að taka kökuna svo út 1-2 klst. áður en hún er borin fram. Skreytt með Oreo kurli og jarðaberjum.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.