Humar og naut að hætti Halldóru
Hjónin Halldóra Hartmannsdóttir og Steingrímur Felixson urðu við áskorun Auðar og Frímanns í Rafsjá og hleyptu okkur alla leið inn í eldhús hjá sér í janúar 2007.
Uppskriftir þeirra hjóna líta vel út á pappír og eftir því sem okkur skilst hreinlega bráðna þær í munni. Þau skoruðu á Ólöfu Hartmannsdóttur og Guðmund Árnason, Skagfirðingabraut 15, að koma með uppskriftir hálfum mánuði síðar.
Forréttur
Humar í hvítlauk og steinselju
1,2 kg skötuselur eða humar
250 gr hvítlauks-smurostur
200 gr smjör
6 hvítlauksrif
1/2 búnt fínt söxuð steinselja
Safi úr 1 sítrónu
Salt og pipar
Smjör og ostur er brætt saman. Hvítlauk, steinselju, kryddi og sítrónusafa blandað saman við. Skerið fiskinn í bita og setjið í eldfast mót og hellið sósunni yfir. Setjið undir grill í ofninum í ca 4-5 mínútur. Berið fram með brauði og salati.
Aðalréttur
Innbakað naut að hætti Halldóru
1,5 kg nauta eða folaldavöðvi
400 gr smjördeig
pipar/sítrónupipar
200 gr sveppir
Sósa:
2 piparostar
1/2 lítri matreiðslurjómi
Soðið saman þar til osturinn er bráðnaður. Kryddið kjötið og brúnið það á pönnu. Steikið í ofni í ca 10-20 mínútur eftir því hvað þið viljið hafa það mikið steikt. Sneiðið sveppina og steikið. Fletjið deigið út og setjið sveppina og kjötið á það og pakkið inn. Bakið við 210 gráðu hita í um það bil 35 mínútur. Beirð fram með bökuðum kartöflum, salati og piparostasósu.
Eftirréttur
Döðludúndur
Kakan:
250 gr döðlur
1 1/2 tsk matarsódi
180 gr smjörlíki
7 1/2 msk sykur
3 egg
4 1/2 dl hveiti
1 tsk vanilludropar
2 tsk lyftiduft
Döðlurnar eru settar í pott og vatn látið fljóta yfir, suðan látin koma upp og slökkt undir og látið standa í um það bil 3 mínútur. Stráið matarsóda yfir. Þeytið vel saman smjörlíki, eggjum og sykri. Þurrefnum blandað út í. Setjið döðlurnar og safann út í deigið. Deigið á að vera á þykkt við vöffludeig. Bakið við 180 gráðu hita í 30-40 mínútur.
Sósan:
120 gr smjör
115 gr púðursykur
1/2 tsk vanillusykur
1/4 bolli rjómi
Allt sett í pott og soðið í 3 mínútur, hrært vel á meðan. Kakan er síðan borin fram með sósunni og þeyttum rjóma eða ís.
Verði ykkur að góðu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.