Það lengist í gulu veðurviðvöruninni
Nokkuð snjóaði í snarpri norðanátt í nótt hér Norðvestanlands en þó ekki meira en svo að varla er hægt að tala um hvíta jörð í byggð. Reiknað var með að gul veðurviðvörun dytti niður upp úr hádegi í dag en Veðurstofan hefur framlengt í þeirri viðvörun sem stendur nú fram á aðfaranótt þriðjudags. Veðrið gengur að mestu niður í dag en áfram verður hvasst á Ströndum fram yfir miðnætti og af þeim sökum hangir viðvörunin inni.
Spáð er norðan- og norðaustanáttum næstu daga en hitatölur haldast rétt ofan við frostmark fram að helgi en á laugardag er reiknað með að hitatölur fari hækkandi.
Vegir á Norðurlandi vestra eru víðast hvar greiðfærir en þó eru hálkublettir á veginum um Vatnsnes, í Langadalnum og í Blönduhlíð en hálka er á Þverárfjalli, Öxnadalsheiði og á Siglufjarðarvegi. Í Hjaltadal í Skagafirði er snjóþekja á vegum en þar er nú éljagangur. Holtavörðuheiðin er greiðfær.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.