Hátíðar sjávarréttasúpa og Daim ísterta

Baldur og Valdís. Mynd úr einkasafni.
Baldur og Valdís. Mynd úr einkasafni.

Matgæðingar 37. tölublaðs Feykis árið 2015 voru þau Valdís Rúnarsdóttir og Baldur Magnússon frá Skagaströnd. Þau buðu lesendum upp á uppskriftir af hátíðar sjávarréttarsúpu með heimabökuðu brauði og Daim ístertu. 

„Súpan hefur verið afskaplega vinsæl hjá fjölskyldunni okkar og verið borin fram við skírn hjá öllum börnunum okkar fjórum. Daim tertan hefur verið regla á jólunum síðan við komumst á bragðið fyrir nokkrum árum og er alveg afskaplega vinsæl af vinnufélögum mínum líka, er iðulega beðin um að koma með hana þegar ég á að koma með köku í sameiginlega kaffinu okkar.“

Aðalréttur
Hátíðar sjávarréttasúpa 

1 krukka Hunt´s spagettí sósa (m. hvítlauk)
1 krukka vatn
½ bolli laukur, saxaður
½ bolli sellerí, sneitt
½ bolli gulrætur, gróf rifnar
½ bolli paprika, söxuð
1 kjúklingateningur
1 peli rjómi
1 msk púðursykur
200 g rjómaostur
250 g rækjur
250 g humar
250 g hörpuskelfiskur

Aðferð:
Ath. má vera ríflegt af grænmeti og hægt er að nota annað sjávarfang en talið er upp hér.
Grunnur: Spagettísósa, vatn, púðursykur og kjúklingateningur sett í pott og soðið. Laukur, sellerí, gulrót og paprika kraumað á pönnu og bætt út í. Rjómaostur bræddur útí (ef súpan er sterk má bæta við meiri rjómaosti). Rjóma og fiski bætt við í lokin og hitað að suðu.

Til að flýta fyrir má gera grunninn annað hvort daginn áður eða fyrr um daginn og hita svo upp og bæta rjóma og fiski við rétt áður en súpan sýður.

Einfalt heimabakað brauð:

1 kg hveiti
1 tsk salt
1 tsk þurrger
950 ml volgt vatn 

Aðferð:
Hveiti, salti og geri blandað saman í skál, volgu vatni hrært út í þar til það er orðið að deigi.  Filmuplast breitt yfir skálina og geymt í ísskáp a.m.k. yfir nótt (má geyma lengur).  Deigið tekið úr ísskáp klukkustund fyrir bakstur. Ofn stilltur á 220°C. Setjið bökunarpappír á tvær plötur og dreifið hveiti vel á þær. Skiptið deiginu í tvennt og mótið brauðhleifa á sitthvora plötuna (ath. að deigið er vel blautt og klístrast mikið, gott að skipta því og hella því svo bara á plötuna og reyna að móta það). 

Bakist í eina klst. þar til brauðið er orðið vel gyllt. Gott er líka að strá Maldon salti aðeins yfir deigið áður en það er sett inn í ofn.


Eftirréttur
Daim ísterta

Botn:
3 eggjahvítur
2 dl sykur
 
Ísinn:
3 eggjarauður
2 dl sykur
4 dl rjómi
4 plötur Daim súkkulaði, smátt skorið 

Aðferð:
Botn: Eggjahvítur og sykur þeytt mjög vel saman, sett í form og bakað á 130°C í 60 mín. Botn svo kældur vel.
Ísinn: Eggjarauður og sykur þeytt mjög vel saman. Rjómi þeyttur sér og svo blandað varlega saman við eggjarauðurnar með sleikju. Söxuðu Daim súkkulaði blandað varlega saman við. Ísblöndunni er svo smurt ofan á marengsinn og fryst.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir