Geggjaður fiskréttur og einföld skyrterta

Gunnar Kristinn og Kristín Ingibjörg. AÐSEND MYND
Gunnar Kristinn og Kristín Ingibjörg. AÐSEND MYND

Matgæðingar í tbl 16, 2021, voru þau Kristín Ingibjörg Lárusdóttir og Gunnar Kristinn Ólafsson. Þau búa á Blönduósi og eiga saman fimm börn. Gunnar starfar hjá Ísgel ehf. sem er í þeirra eigu ásamt bróður Kristínar og mágkonu. Kristín er menningar-, íþrótta-, og tómstundafulltrúi Blönduósbæjar.

„Við höfum mikinn áhuga á matargerð og erum dugleg að prófa eitthvað nýtt í þeim efnum. Við borðum mikinn fisk sem við annað hvort gerum ofnrétt úr, steikjum, grillum eða sjóðum. Þennan fiskrétt gerði ég fyrst fyrir nokkrum mánuðum síðan og vakti hann mikla lukku meðal allra heimilismeðlima og er því orðinn einn vinsælasti fiskrétturinn á heimilinu,“ segir Kristín. 

AÐALRÉTTUR
Geggjaður fiskréttur í chili pestó rjómasósu - Uppskriftin er fyrir 5-6

    1200 g þorskur eða ýsa (roð og beinlaus)
    200 g hveiti
    2 tsk. salt
    2 tsk. svartur pipar
    1 krukka Scala chili pestó
    ½ l rjómi
    1 krukka fetaostur í kryddolíu
    200 g döðlur

Aðferð: Hitið í 190 gráður og blástur. Setjið hveiti, salt og pipar í stóran glæran plastpoka hristið saman. Skerið fiskinn í hæfilega stóra bita, þerrið bitana með eldhúsbréfi, setjið ofan í pokann hristið þar til bitarnir eru þaktir hveiti. Hitið olíu á pönnu, rétt lokið fisknum í u.þ.b. 45 sek. á hverri hlið, leggið í eldfast mót. Í skál blandið þið saman chili pestóinu og rjómanum og hellið yfir fiskinn. Skerið döðlur í hæfilega stóra bita og sáldrið yfir fiskinn. Í lokin dreifið þið fetaostinum yfir ásamt vænum hluta af olíunni. Setjið inn í 190°C heitan ofninn í 25 mínútur.

Gott er að bera hrísgrjón, hvítlauksbrauð og ferskt salat fram með réttinum.

EFTIRRÉTTUR
Einföld og hrikalega góð skyrterta

    1 pakki LU kex
    120 g íslenskt smjör 

    1 peli rjómi
    1 dós vanilluskyr frá KEA

Kirsuberjasósa
Aðferð: Myljið LU kexið í matvinnusluvél og hellið í kringlótt form. Bræðið smjörið og hellið yfir kexið. Magn smjörsins fer algjörlega eftir smekk en mér finnst gott að hafa kexið vel blautt. Þeytið rjómann og hrærið skyrinu vel saman við. Smyrjið yfir kexblönduna. Hellið kirsuberjasósunni yfir allt. Bætið við bláberjum, jarðarberjum eða öðru sem ykkur þykir gott. Eftirrétturinn er svo kældur vel inn í ísskáp áður en hann er borinn fram.

Verði ykkur að góðu!

Þau skoruðu á Vigdísi Elvu Þorgeirsdóttur og Þröst Árnason á Skagaströnd, en Vigga er þekkt fyrir að töfra fram alls konar góðgæti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir