Einfaldur en áhrifaríkur kjúklingur

Hjónin Snorri Styrkársson og Kristrún Ragnarsdóttir urðu við áskorun og leggja fram uppskriftir vikunnar. Aðalréttinn fengu þau fyrst í New York og eftir mikla yfirlegu náðu þau að útbúa sína eigin útgáfu af réttinum.

 

Aðalréttur

Pabba kjúklingur

  • 1 kjúklingur fyrir 4 að hámarki
  • Salt
  • Pipar
  • 150 ml Hunts Barbecue Orginal sósa
  • 150 ml Stek & grillolja orginal frá Caj P.

Þetta er afskaplega einfaldur réttur en áhrifaríkur. Hann er tilkominn sem eftirlíking af kjúklingarétti sem ég fékk á óþekktum grillstað á Manhattan fyrir áratug eða rúmlega það og slefaði yfir í bókstaflegri merkingu í margar vikur á eftir í hvert sinn er mér varð hugsað til Nýju Jórvíkur. Eftir mikla tilraunamennsku tókst okkur hjónunum að ná þessu bragði sem síðan hefur reynst nánast eini kjúklingarétturinn sem þýðir að bjóða á okkar heimili.

Olíunni er blandað saman í skál/bolla. Kjúklingurinn er hlutaður til helminga og settur í eldfast mót, saltaður og pipraður báðum megin og síðan er hann smurður með olíunni/sósunni, fyrst að innanverðu en síðan að utanverðu. Skiptir verulegu máli að spara ekki olíuna/sósuna á kjúklinginn. Einnig má blanda örlitlu af vatni í eldfasta mótið á eftir. Það sem gerir þennan rétt enn betri, er að hafa kjúklinginn vel upp þýddan og ekki síður að gera hann kláran strax að morgni. Einnig er sveigjanleiki í eldamennskunni að steikja kjúklinginn fyrst með innrihlutann upp snúa honum síðan við eftir ca 30 mín steikingu og smyrja hann þá með sósunni/olíunni að utanverðu og steikja þannig það sem eftir er.

Kjúklinginn þarf að steikja í um 1 og hálfa klukkustund í ofni við 180-200 C hita. Mikilvægt er að ná soði með sósunni/olíunni úr mótinu sem sósu á hrísgrjónin.

Meðlæti er hrísgrjón, soðið af kjúklingnum og bananasalat.

Salat

Bananasalatið er einfalt; með ísberg, púrrulauk, papriku, tómat og síðan 1-2 bönunum. Allt skorið í hæfilega bita og blandað saman í skál.

Eftirréttur

Vanilluís með hnetusúkkulaðisósu og þeyttum rjóma

  • Vanilluís.
  • 100 gr Sirius suðusúkkulaði
  • 1 – 2 dl mjólk
  • 2 kúfaðar matskeiðar af Peter Pan Crunschy hnetusmjöri
  • Þeyttur rjómi

Sósan er gerð með því að hita við vægan hita í potti, súkkulaðið, mjólkina og hnetusmjörið, má ekki sjóða, þarf að hræra stöðugt í. Borið fram með þeyttum rjóma. Algjör kaloríubomba enda bragðgóður eftirréttur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir