Eftirréttir á grillið

Grillaður banani með súkkulaði og ís.
Grillaður banani með súkkulaði og ís.

Þessar ágætu grilluppskriftir birtust í matarþætti Feykis fyrir tveimur árum síðan.

Nú er nálgast ágúst og ekki líður á löngu áður en skólarnir byrja. Þá veit maður að haustið nálgast og því eins gott að njóta góðu sumardagana sem við fáum og á slíkum dögum er grillmatur ómissandi. Í sumar hefur Feykir deilt bæði uppskriftum af maineringum og grilluppskriftum en nú ætlar hann að deila með ykkur uppskriftum af grilluðum eftirréttum, því það er ekki síðra að grilla eftirréttinn. Eftirfarandi eru uppáhalds sumareftirréttir blaðamanns, en hann mælir eindregið með að skella þessu á grillið á eftir lærissneiðunum og hamborgurunum.

Grillaðir bananar með súkkulaði og ís
Grillaðir bananar með súkkulaði og ís er frábær grillréttur sem bæði er einfaldur og hægt að undirbúa áður en matargestir koma.  Gott er að gera ráð fyrir einum banana á mann en einn banani, með þremur ískúlum yfir þykir mér vera mjög passlegur skammtur sem gott er að miða við.

  • bananar
  • Nusica súkkulaðismjör
  • vanilluís
  • digistive kex

Takið bananann úr hýðinu og skerið rauf eftir honum endilöngum. Fyllið raufina með Nusica súkkulaðismjöri. Rífið álpappír í ca 30 x 30 cm og spreyið með PAM. Setjið bananann í miðjuna, lyftið hliðunum á álpappírnum upp og brjótið hann saman efst. Munið að skilja eftir loft fyrir ofan bananann fyrir gufuna. Brjótið hliðarnar saman. Grillið við miðlungsháan hita í um 10 mínútur, eða þar til bananinn er mjúkur og súkkulaðið bráðnað. Á meðan er Digistive kex mulið. Fjarlægið bananann úr álpappírnum og setjið á disk. Setjið ískúlur yfir bananann og dreifið muldu Digistive kexi yfir. Berið strax fram.

Hin uppskriftin er ekki síðri en það er klassískt en svo gott grillgotterí; Ávextir með kókosbollum og karamellum. Hann er mjög einfaldur og hentar alltaf vel, og líkt og sá fyrri er hægt að undirbúa áður.

Uppskrift fyrir 4:

  • 1 stór banani, skorinn í sneiðar
  • 2 stórar perur, afhýddar og skorin í bita
  • 100 g vínber
  • 2-3 kíwi, skorin í bita
  • 1 poki Dumle karamellur (120 g)
  • 4 kókosbollur

Ávöxtunum er blandað saman og settir í álbakka. Karamellurnar eru klipptar eða skornar niður í þrjá bita hver og þeim dreift yfir ávextina. Kókosbollurnar eru skornar í tvennt langsum og þeim raðað yfir ávextina þannig að hvíta kremið vísi upp. Grillað við lágan til meðalhita í um það bil 8-10 mínútur eða þar til karamellurnar eru bráðnaðar og hvíta kremið í kókosbollunum orðið stökkt. Borið fram strax með ís.

Njótið!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir