Broddborgarar og fleira góðmeti
Í 22. tölublaði Feykis árið 2017 voru það þau Broddi Reyr Hansen og Christine Hellwig sem léku listir sínar við matreiðsluna. Þau búa á Hólum og hefur Broddi búið þar frá árinu 1998 en Christine frá 2004. Broddi er líffræðingur að mennt en starfar sem kerfisstjóri við Háskólinn á Hólum, í frítíma sínum hefur hann m.a. stundað bjórgerð fyrir þyrsta íbúa á Hólum. Christine er grunn- og leikskólakennari og starfar sem deildarstjóri við leikskólann Tröllaborg á Hólum, hennar áhugamál er meðal annars að æfa og syngja í Skagfirska kammerkórnum. Saman eiga þau tvö börn, Janus Æsi og Ylfu Marie. Þau gáfu okkur uppskriftir að einföldum fiskrétti, Broddborgurum sem eru tilvaldir í föstudagsmatinn og risa pönnukökum sem henta vel á laugardegi að þeirra sögn.
RÉTTUR 1
Einfaldur fiskréttur á miðvikudegi
Þótt gaman sé að grilla kjöt þá er fiskur líka afbragðs matur og ekki sakar að hann er hollur. Hér er hugmynd að einföldum fiskirétti sem mun slá í gegn hjá fjölskyldunni!
1 kg fiskur, t.d. ýsuflök
1 saxaður laukur
2 paprikur
1 askja sveppir
4 gulrætur
½ dós ananaskurl
1 dós beikon smurostur
2 dl rjómi
1 msk smjörlíki
karrí, súpukraftur, sítrónupipar og fiskikrydd.
Aðferð: Saxið allt grænmetið og steikið í smjörlíki. Bætið síðan beikonosti, rjóma og ananaskurli út í. Látið ostinn bráðna og kryddið með súpukrafti og karrí. Raðið fiskflökum í eldfast mót og kryddið með sítrónupipar og fiskikryddi. Hellið grænmetissósublöndunni yfir fiskinn og setjið á 200°C í hálftíma. Borið fram með hrísgrjónum eða bankabyggi og fersku salati.
RÉTTUR 2
Broddborgari á föstudegi
Gott er að byrja helgina með matarmiklum hamborgara á föstudegi. Opnið eina flösku af góðum bjór og hafið tilbúna til að grípa í ef hlutirnir fara ekki alveg eftir áætlun. Einnig er nauðsynlegt að hafa eina dós af bjór á hliðarlínunni. Hnoðaðar eru 300 g bollur úr íslensku nautahakki, fínt er að krydda hakkið með salti og pipar. Búin er til hola í hakkbolluna með því að troða dósinni gætilega inn í miðjuna, ekki fara í gegn samt. Ef þetta tekst, þá er gott að halda upp á lok þessa skrefs með því að drekka innihald dósarinnar. Til að kjötbollan lifi af steikingu þarf að klæða hamborgarann með beikoni, vefjið nokkrum beikonseiðnum utan um kjötið.
Svo er það fyllingin: Hún er gerð með þeim hætti að það sem er til í ísskápnum, svo sem sveppir, paprika og laukur er steikt á pönnu og kryddað eftir smekk, ef þið hafið enga hugmynd þá skal nota salt og pipar. Fyllið holuna með steikta grænmetinu, á toppinn er settur bragðmikill ostur, jafnvel nokkrar gerðir, við mælum með gráðosti. Þessu þrjúhundruð gramma flykki er síðan komið fyrir á tveim álbökkum og flutt yfir á grillið. Drekkið innihald flöskunnar sem þið opnuðuð í upphafi og látið þetta grillast. Að lokum er hamborgarinn fluttur yfir á hamborgarabrauðið, farið varlega, þetta er vandasamt og hægt að klúðra öllu. Ekki gleyma að athuga hvort listugar sósur eru til í eldhúsinu, til dæmis passar BBQ alltaf vel á svona borgara. Njótið herlegheitanna.
Skoðið meðfylgjandi myndir til að átta ykkur á ferlinu.
RÉTTUR 3
Risa pönnukökur (crepes) á laugardegi
Stundum langar okkur í eitthvað einfalt og gott sem allir geta borðað, þessi einfaldi franski skyndibiti er tilvalinn helgarmatur. Bakaðar eru stórar pönnukökur (crepes), fylling gerð í potti og borin fram. Hægt er að rúlla eða brjóta saman kökuna með fyllingu í. Gera má síðustu pönnukökuna að eftirrétti með því að setja eitthvað sætt á borðið eins og til dæmis Nutella!
Deig:
500 g hveiti
3 msk smjör
4 egg
mjólk til að gera deigið vatnskennt
Aðferð: Setjið hveiti í skál, blandið mjólk út í þangað til komið er kekkjalaust þykkt deig. Að því loknu skal hella bræddu smjöri saman við. Bætið við einu eggi í einu. Notið meiri mjólk til að gera deigið vatnskennt eða þar til drýpur af sleifinni. Hrærið þessu vel saman þangað til allir kögglar hverfa og látið standa í 30 mínútur. Síðan eru bakaðar pönnukökur á stærstu pönnu heimilisins, notið þau verkfæri sem hendi eru næst. Til að fá hugmynd um hvernig þetta er bakað er hægt að skoða myndbandið https://goo.gl/FSRKJJ Æfingin skapar meistarinn!
Fylling:
1 pakkning brauðskinka
1 fínsaxaður laukur
1 lítil dós Ora gulrætur og grænar baunir
gott karrí (ekki nota gamla útrunna dótið)
grænmetissúpukraftur
smá hveiti, smjör, vatn og mjólk
Aðferð: Saxið lauk smátt og skerið skinku í bita og steikið hvoru tveggja í smjöri og karrí, látið malla smá. Setjið eina matskeið af hveiti út í og látið hitna. Vatni er bætt út í pottinn og búin til þykk sósa. Ora gulrætur og grænar baunir sett saman við. Kryddið með súpukrafti og karrí eftir smekk. Setja má smá mjólk útí sósuna í lokin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.