„Við gerum ráð fyrir að fallið verði frá þessum áætlunum“

Guðlaug afhendir Sigfúsi Inga sveitarstjóra undirskriftirnar í síðustu viku. MYND AF FB-SÍÐU UMRÆÐUHÓPSINS
Guðlaug afhendir Sigfúsi Inga sveitarstjóra undirskriftirnar í síðustu viku. MYND AF FB-SÍÐU UMRÆÐUHÓPSINS

Talsverð umræða hefur skapast um þá áætlun sveitarfélagsins Skagafjarðar að tjaldsvæði á Sauðárkróki verði í Sæmundarhlíð neðan og norðan Hlíðarhverfis og lægi þannig að Sauðárgili. Skipulag svæðisins hefur verið auglýst og sitt sýnist hverjum. Þeir sem búa í nágrenni við áætlað tjaldsvæði hafa margir hverjir lýst yfir óánægju sinni og stofnaður var hópur á Facebook í vetur þar sem fólki hefur gefist kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri. Þar var þess til að mynda krafist að áður en endanleg ákvörðun yrði tekin gæfist íbúum kostur á að funda með sveitarfélaginu.

Kynningarfundur vegna tjaldsvæðis var síðan haldinn þann 30. apríl sl. á 2. hæð í Húsi frítímans og segir Guðlaug Pálsdóttir, sem er í forsvari fyrir þá sem eru á móti tjaldsvæði á þessum stað, að aðsókn á fundinn hafi verið það mikil, yfir 80 manns, að ekki komust allir inn í sal sveitarstjórnar. „Tóku margir íbúar til máls á fundinum og lýstu óánægju sinni með staðsetningu á tjaldsvæðinu. Fundurinn var málefnanlegur og færðu íbúar góð rök fyrir máli sínu,“ sagði Guðlaug í spjalli við Feyki.

Um hvað snýst málið? „ Í nýju aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035 er verið að flytja tjaldstæði úr miðbæ Sauðárkróks yfir í Sauðárgil sem er milli Sæmundarhlíðar og Sauðár. Samkvæmt teikningum þá er áætlun að flytja tjaldstæði sem rúmar allt að 320 manns inn í rólegt og rótgróið íbúðahverfi. Í dag er þetta opið grænt svæði, gönguleið sem börn og fullorðnir nota á hverjum degi þegar þeir fara í skóla eða vinnu. Þessi leið er örugg gönguleið fjarri umferð alla leið inn á lóð Árskóla og íþróttasvæði Tindastóls.“

Guðlaug segir að með tilkomu þessarar breytingar verði stóraukin ógn við umferðaröryggi barna á svæðinu sem mun þá skerða lífsgæði barna og fullorðinna á svæðinu. „Samkvæmt skipulaginu er áætluð aðstaða fyrir 100 tjöld, þar af rými fyrir 30 tjaldbíla og 60 ferðavagna, hámarks gestafjöldi 320 manns. Þetta er gríðarlegur fjöldi af fólki sem á að staðsetja inn í mitt íbúðarhverfi. Reikna má með því að á góðri helgi að bílafjöldinn sem bætist við daglegt umferðarmagn verði um 125 bílar sem streymir inn og út Sæmundarhlíð og Sauðárhlíðar. Gefum okkur að skiptingin verði 60 bílar með tengivagna, sem vega um það bil 2-6 tonn, 30 tjaldbílar og að lágmarki 35 bílar sem fylgja tjaldbúum ef við gefum okkur að tveir séu að ferðast saman. Samtals geri þetta 125 bíla sem bætast við umferðarþungan inn og út úr hverfinu á tímabilinu maí - ágúst.

Hún segir þetta vera gríðarlegt umferðarálag inn í kyrrlát íbúðarhverfi en reikna megi með verulegri truflun eða áreiti af völdum hávaða sem mun trufla ró íbúðahverfis og að loftgæði skerðist með aukinni mengun sem fylgir aukinni bílaumferð. „Að skipuleggja tjaldstæði á þessu svæði tel ég vera skammsýni og hvorki verið að huga að þörfum íbúa svæðisins eða tjaldsvæðisgesta til framtíðar. Í flestum sveitatfélögum er verið að byggja upp tjaldsvæði í jaðri íbúðarbyggðar og hér á Sauðárkróki höfum við nægt landsvæði undir tjaldstæði,“ bætir hún við.

Yfir 370 undirskriftir

Eitt af því sem Facebook-hópurinn ýtti úr vör var undirskriftasöfnun á Ísland.is þar sem staðsetningu tjaldsvæðisins var mótmælt. Nú fyrir hvítasunnuhelgina hélt Guðlaug á fund sveitarstjóra Skagafjarðar, Sigfúsar Inga Sigfússonar, og afhenti honum undirskriftirnar.

Hvernig gekk að safna undirskriftum? „Undirskriftarsöfnuninn gekk mjög vel og við fengum yfir 370 undirskriftir á listann. [...] Miðað við kröftug mótmæli, efnislega góðar og vel rökstuddar athugasemdir frá íbúum sveitarfélagsins þá hlýtur kjörnum fulltrúum að vera það ljóst að við íbúarnir viljum ekki tjaldsvæði inn í hverfið. Skipulagsgáttinn hefur þann tilgang að almenningur getur komið sínum athugasemdum á framfæri til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og á þá sé hlustað. Því má vera ljóst að við gerum ráð fyrir að fallið verði frá þessum áætlunum,“ segir Guðlaug.

Feykir sendi fyrirspurn á Sigfús Inga Sigfússon, sveitarstjóra Skagafjarðar, og spurði hvað yrði gert með mótmæli íbúa og sagði hann málefni tjaldsvæðis á Sauðárkróki vera í skipulagsferli, íbúafundur hafi verið haldinn og auglýsingatími þar sem fólki gafst færi á að koma athugasemdnum á framfæri hafi í kjölfarið verið lengdur um tvær vikur. „Ekki er búið að taka samantekt á innsendum athugasemdum fyrir í skipulagsnefnd en ákvörðun um framhaldið verður tekin á þeim tímapunkti,“ sagði Sigfús Ingi.

Guðlaug segir íbúa fagna metnaðarfullum áætlunum um fallegt og gott tjaldstæði en ekki inni í íbúðarhverfi. „Við eigum að taka vel á móti ferðamönnum og aðstaðan þarf að vera góð. En þetta þarf að vera unnið í sátt við íbúa sveitarfélagsins og íbúar þurfa að vera vel upplýstir, það þarf að boða til íbúafundar áður en lagt er í mikinn hönnunarkostnað. Almennt liggja íbúar ekki yfir skipulaginu og treysta kjörnum fulltrúum fyrir starfinu. Lærdómurinn af þessu máli ætti að vera sá að þegar fyrirhugaðar breytingar á skipulagi hafa svona gríðarlega miklar breytingar á hverfi í för með sér, þá þarf að halda íbúafund á fyrstu stigum málsins,“ segir Guðlaug að lokum.

Hér er hlekkur á eldri frétt um tjaldsvæðið en þar má finna teikningu af fyrirhuguðu svæði sem og hlekk á myndband um tjaldsvæðið >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir