Skagfirðingar syngja

Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson skrifar um geisladisk Geirmundar Valtýssonar, Skagfirðingar syngja. Mynd: PF
Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson skrifar um geisladisk Geirmundar Valtýssonar, Skagfirðingar syngja. Mynd: PF

Ég eignaðist disk um daginn. Það er svo sem ekkert nýtt en þegar ég var búinn að hlusta á hann og einnig upplifa útgáfutónleika í Miðgarði datt mér í hug að skrifa nokkur orð um þetta verk, einhverskonar gagnrýni með áherslu á það jákvæða.

Geirmundur á langan feril í tónlistinni og mörg lögin hefur hann samið í áranna rás. Hann er maður sveiflunnar og oft nefndur sveiflukóngur. Eins og flestir vita hefur Geirmundur spilað á dansleikjum í marga áratugi og þar þurfa að vera stuðlög og þar þurfa að vera vangalög. Einmitt þannig lög semur Geirmundur, sveiflur og ballöður. Þessi diskur er frábrugðinn öðrum sem Geirmundur hefur gefið út að því leyti að hann fær eingöngu Skagfirðinga til að syngja með sér á honum.

Fjölbreyttur diskurinn byrjar fjöruglega með lagi sem Sveinn Rúnar Gunnarsson og Erna Rut Kristjánsdóttir syngja af krafti og er mjög einkennandi fyrir lagasmíðar Geirmundar. Munu margir eflaust fá fiðring í fæturna þegar „Sunna” hljómar. Næst kemur bakarinn sem syngur með kraftmikilli röddinni „Það varst þú”. Vel flutt og gott lag með mexíkóskum blæ en þeim trompetskotna blæ slær einmitt fyrir í nokkrum laganna. Titillagið er frábærlega flutt af hinum rómuðu og síungu Álftagerðisbræðrum. Hér hittir Geirmundur á enn eina snilldina sem mun eflaust, eins og mörg lög Geirmundar, lifa með okkur lengi. Rödd Sigurlaugar Vordísar hentar einkar vel í laginu „Úlla la la la”, ekta júróvisjón smellur sem hefði getað farið langt í þeirri keppni. Sigvaldi og Sóla fara mjúkum höndum um hið mjög svo hugljúfa lag „Lífið og lækurinn.” Sigvaldi heldur svo áfram í öðru hugljúfu lagi „Hvar sem ég er” og bregst ekki bogalistin frekar en í undangengnu lagi. Anna Karen er frábær í „Ég gæti”. Tónviss stelpa sem fer vel með þetta skemmtilega lag afa síns. „Ótrúlega blá” er lag sem heyrst hefur áður og erfitt var að sjá einhverju við það bætt en Hreindísi Ylfu Garðarsdóttur tekst það vel og gerir hún jafnframt þetta vel samda og fallega lag að sínu. „Viðvíkursveit” er vinaleg ballaða sem Ólöf Ólafsdóttir syngur óaðfinnanlega. Það er eitthvað krúttlegt við þetta lag. Valdís Valbjörnsdóttir fer prýðilega með hið angurværa lag „Söknuður”, túlkun sem gæti í einhverjum tilfellum kallað fram tár. Hina dæmigerðu sveiflu má svo heyra í laginu „Hvað á svo að gera í kvöld?”. Smekklegur dúett hjá Geirmundi og Sigurlaugu Vordísi í lagi sem áður hefur komið út en það var á jólaplötu Geirmundar undir nafninu „Hvað viltu fá í jólagjöf?“. „Söngur um söng” er magnað lag sem minnir mig að einhverju leyti á ekki ómerkari dúett en Jon & Vangelis og á tær rödd Róberts Gunnarssonar þar stóran þátt. Diskurinn tekur svo enn nýja stefnu í lokalögunum tveimur en þau sýna vel fjölhæfni Geirmundar í lagasmíðum. Fyrra lagið er „Skagafjörður”, dúett sem bræðurnir Árni Geir og Jóhann Sigurbjörnssynir syngja af miklum myndugleik og síðara og jafnframt síðasta lagið á disknum, „Drangey” sem barítonsöngvarinn Ásgeir Eiríksson flytur með tilþrifum.

diskurGeirmundi tekst yfirleitt vel að grípa tilfinningu þeirra texta sem hann hefur í höndum en textarnir á disknum, sem margir hverjir eru frábærir, koma úr ýmsum áttum. Höfundar eru Árni Gunnarsson, Hilmir Jóhannesson, Sigurður Hansen, Kristján Hreinsson, Anna Þóra Jónsdóttir, Þorleifur Konráðsson, Þorsteinn Eggertsson, Kristján Örn Kristjánsson, Ingimar Bogason og Geirmundur. Eins og lögin þá eru þeir margs konar, léttir, ástríðufullir, angurværir, tregafullir, gamlir, nýir og flest allir skagfirskir.

Í nokkrum lögum hefði mátt vanda betur upptöku á söng, t.d. láta raddir í dúettum liggja betur saman. Þá hefði einnig þurft að lesa betur yfir texta og aðrar upplýsingar sem fylgja disknum.

Frábært framtak hjá Geirmundi og gott hjá honum að nota eingöngu  skagfirskar raddir á disknum, sem er bæði hress og skemmtilegur. Næst mætti bæta um betur með því að nota einnig skagfirskt undirspil. Fínn diskur sem vinnur hratt og örugglega á og aðdáendur Geirmundar Valtýssonar geta vel við unað.

Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson, Sauðárkróki

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir