Lionsmenn höfðinglegir að vanda
Höfðingleg gjöf Lionsklúbbs Sauðárkróks, til HSN á Sauðárkróki var afhent í dag. Það voru þeir, Valgeir Kárason, Jón Eðvald Friðriksson og Halldór Hjálmarsson sem afhentu tækið fyrir hönd Lionsmanna. Nýburagulumælir/blossamælir er gjöfin sem umræðir. „Á síðustu árum höfum við þurft að senda töluvert af nýbökuðum foreldrum og nýburum á fyrstu dögum eftir fæðingu til Akureyrar til að meta nýburagulu, þar sem hér hefur ekki verið til tæki til að mæla eða meta slíkt,“ segir Anna María Oddsdóttir ljósmóðir HSN á Sauðárkóki.
„Nýburagula getur verið hættuleg heilsu nýbura og mikilvægt að greina það sem fyrst til að koma í veg fyrir alvarlegt ástand. Klínískt mat getur verið erfitt og mælir sem þessi gefur betri upplýsingar með framhald,“ segir Anna María. Með þessu er hægt að fækka blóðprufum á ungviðinu og líka fækka óþarfa ferðum yfir Öxnadalsheiðina á þessum fyrstu dögum eftir fæðingu.
Það er ómetanlegt hvað samtök á borð við Lionsklúbbinn hafa gefið mikið af sér til samfélagsins í gegnum árin. Með tækjum og búnaði sem nýtist svo fólki þegar það þarf að þiggja heilbrigðisþjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Ef því er gefið auga þegar farið er á Heilbrigðiststofnun þá eru ansi margir hlutir þar, merkt gjöf. Við hjá Feyki skilum innilegu þakklæti frá Heilbrigðisstofnun Norðulands á Sauðárkróki, fyrir þessa góðu gjöf sem á eftir að nýtast vel við ummönnun nýbura á komandi árum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.