KS vill kaupa skagfirsk listaverk

Kaupfélagið Skagfirðinga hefur keypt nokkur verk í gegnum tíðina, m.a. eftir Jóhannes Geir. Ljósm./www.skagafjordur.is/sturlungaslod
Kaupfélagið Skagfirðinga hefur keypt nokkur verk í gegnum tíðina, m.a. eftir Jóhannes Geir. Ljósm./www.skagafjordur.is/sturlungaslod

Stjórn Menningarsjóðs KS hefur tekið þá ákvörðun að stofna til sérstaks framlags til kaupa á listaverkum sem tengjast Skagafirði, eftir listamenn sem eru frá Skagafirði eða tengdir firðinum á einhvern hátt. Kaupfélagið hefur keypt nokkur verk í gegnum tíðina, m.a. eftir Jóhannes Geir, Elías, Sossu o.fl. og segir Marteinn Jónsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs KS, áhuga hjá félaginu að eignast fleiri verk. 

Marteinn sagði hugmyndina á bakvið kaupin bæði felast í að eignast listaverk en jafnframt að styrkja listamenn með kaupunum. Þá tók hann fram að listin sé ekki bundin við málaralist heldur hvers kyns listsköpun. „Það var sett framlag í þetta núna og við erum að byrja svipast um og skoða þennan markað í Skagafirði, athuga hvað er í boði og tökum svo ákvarðanir í framhaldi af því,“ sagði Marteinn í samtali við Feyki. 

Skipaður hefur verið starfshópur sem mun hafa umsjón með þessum málaflokki. Í fyrstu munu Marteinn, Ingimundur Sigfússon frá Þingeyrum og Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri skipa hópinn. Jón Ormar hefur verið starfshópnum innan handar við að taka saman lista yfir listamenn og segir Marteinn þó nokkuð marga komna á lista en það mun jafnframt vera núlifandi listamenn og þeir sem fallnir eru frá. Ábendingar um listamenn frá Skagafirði, eða tengdum Firðinum, eru vel þegnar og eru þeim beint á skrifstofu KS. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir