Hefur flutt fjórum sinnum síðustu vikurnar
Feykir sendi einvalaliði nokkrar spurningar til að gera árið 2023 upp. Fyrstur til svara er þingmaðurinn knái af Reykjanesi, Vilhjálmur Árnason, sem er Skagfirðingur að upplagi og í báðar ættir. Hann býr í Grindavík og þar hefur allt titrað og skolfið síðustu vikurnar eins og allir þekkja.
Hver er maður ársins? – Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur sem hefur komið fumlaust fram fyrir hönd okkar íbúa Grindavíkur, starfsfólks og bæjarstjórnar í þeim miklu áskorunum sem hafa dunið yfir. Hann hefur staðið traustur eins og klettur ásamt því að færa yfirvegun yfir til samfélagsins.
Hver var uppgötvun ársins? – Náttúruöflin eru svo miklu stærri og meiri en maður getur náð tökum á. Á Íslandi þurfamaður og náttúra að læra að lifa saman.
Hvað var lag ársins? – Rúlletta með Ice Guys en við fjölskyldan horfðum saman á þættina og fylgdum laginu þannig úr hlaði.
Hvað gerðirðu ekki á árinu sem þú ætlaðir þér að gera? - Það er margt sem þurfti að fara til hliðar á árinu og m.a. komst ég ekki jafn oft heim í Skagafjörðinn og eins og hafði ætlað mér.
Hvers er eftirminnilegast frá árinu 2023? – Það var tvímælalaust 10. nóvember þegar ég sat inni í sal Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna þar sem Ísrael og Palestína voru að ávarpa öryggisráðið. Á meðan fylgdist ég með fréttum af náttúruhamförunum heima í Grindavík sem leiddu til rýmingar bæjarins.
Hvaða þrjú orð lýsa árinu best? – Jarðhræringar – óvissa og flutningar. Þeim langvinnu jarðhræingum sem nú ganga yfir á Reykjanesi hefur fylgt mikil óvissa, ein óvissan tekur við af annarri. Það að fá ekki að búa á heimili sínu hefur leitt til þess að við höfum flutt á fjóra mismunandi staði á meðan ferlinu stendur. En nú erum við komin í varanlegt húsnæði með okkar innbúi eitthvað fram á vor.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? – Öllum þeim misvísandi skilaboðum sem hafa komið fram á þessu tímabili síðan Grindavík var rýmd, sérstaklega frá vísindamönnum. Þetta hefur haft mikil áhrif á tilfinningar fólks og einnig framtíð Grindavíkur og hversu hratt uppbyggingin getur gengið fyrir sig.
Hvað viltu sjá gerast árið 2024? – Ég vil sjá meiri bjartsýni og jákvæðni í allri þjóðfélagsumræðu. Vonandi sjáum við Grindavík byggjast hratt upp, verðbólguna húrra niður og aukna orkuöflun hefjast.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.