Gleði og gott veður
Þegar veðrið er gott verður allt sem fyrir er frábært aðeins betra. Laufskálaréttarhelgin er liðin og svei mér þá ef hún var ekki bara ennþá skemmtilegri en í fyrra. Er ekki hægt að segja þetta á hverju ári. Þessi helgi toppar sig alltaf. Auðvitað talar maður ekki fyrir alla þegar tekið er svona til orða. En vel heppnuð helgi engu að síður. Sýningin í reiðhöllinni Svaðastöðum var vel sótt og notað hvert einasta sæti í höllinni sem í boði var.
Blaðamaður heyrði fyrst að eitthvað í kringum 400 manns hafi farið ríðandi dalinn á laugardagsmorgninum, þegar leið á daginn var talan komin í 500 manns sem komu ríðandi niður að rétt og lokatalan á fólkinu þegar vel var liðið á nóttina var að 600 manns hafi verið við reksturinn heim að rétt. Óáreiðanleg blaðamennska hér á ferð en nú viti þið að þetta var svakalega margt fólk. Það sem einkenndi daginn var hvað var mikil gleði yfir fólki, prúðmennska, fallegur söngur og allt virtist fara svo ljúfmannlega fram. Gott verður laðar fram það besta í fólki, blaðamaður stendur og fellur með þeim orðum. Á ballið mætti haugaglás af fólki, engar tölur verða tíundaðar því eins og áður hefur komið fram ber mönnum yfirleitt ekki alveg saman, segjum bara að það hafi verið svo gott sem uppselt. Dúndurstemming og stuð einkenndi helgina.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.