Með Sturlungu á heilanum
Á morgun laugardaginn 4. nóvember milli klukkan 16:00 og 18:00 verður útgáfuhóf í Kakalaskála sem staðsettur er á bænum Kringlumýri í Skagafirði. Tilefnið er útgáfa á vefnámskeiði þar sem Sturlungasérfræðingarnir Einar Kárason rithöfundur, Óttar Guðmundsson rithöfundur og geðlæknir, Sigríður Sigurðardóttir sagnfræðingur og fræðimaður og Sigurður Hansen eigandi Kakalaskála, rekja þráðinn í gegnum Sturlungu með sínu lagi. Þau segja frá því sem þeim þykir markverðast svona nokkurn veginn í tímaröð og taka í leiðinni ýmsa óvænta vinkla á menn og málefni.
Opnað verður á sölu á námskeiðinu í útgáfuhófinu. Þá verður hægt að kaupa sér aðgang í gegnum vefslóðina sturlungaslod.is. Þegar búið er að borga námskeiðið opnast það á netinu og þá er hægt að fara í gegnum það á sínum hraða og þegar manni hentar, þó innan 6 mánaða. Eftir 6 mánuði frá kaupdegi lokast aðgangurinn. Námskeiðið verður til sölu hjá Kakalaskála svo lengi sem það er eftirspurn eftir því. Gert er ráð fyrir að þeir sem kaupa námskeiðið geti einnig setið að minnsta kosti einn veffund á Zoom í rauntíma þar sem hægt verður að spjalla við einn eða fleiri Sturlungusérfræðing.
Feykir hafði samband við Esther Ágústsdóttur sem er einn af aðstandendum Kakalaskála, en það eru foreldrar hennar eiga hann og reka. „Sigurður fósturfaðir minn hefur verið með Sturlungu á heilanum frá unga aldri og hefur að sönnu lifað og hrærst í henni síðustu áratugi. Hann og Sigríður Sigurðardóttir voru til dæmis meðal stofnfélaga í félaginu Á Sturlungaslóð hér í Skagafirði en í því félagi var unnið gríðarlega mikilvægt starf til kynningar á arfleifð Sturlungu.
Sigurður hefur eins og margir vita byggt upp Kakalaskála ásamt fleirum. Þar eru tvær sögu- og listasýningar sem tengjast Sturlungatímanum, annars vegar sýning inni í Kakalaskála sem leggur áherslu á líf Þórðar kakala og hins vegar útilistaverkið Sviðsetning Haugsnesbardaga 1246 (Grjótherinn). Sigríður hefur margt rannsakað og ritað um Sturlungatímann, meðal annars þátt Ásbirninga í sögunni. Einar Kárason hefur ritað heilan sagnabálk í tengslum við Sturlungu sem hann nefnir Óvinafagnað og Óttar Guðmundsson hefur ritað bókina Sturlunga geðlæknisins þar sem meðal annars er að finna ýmsar geðgreiningar. Einar, Óttar, Sigríður og Sigurður hafa öll komið fram opinberlega í tengslum við Sturlunguefnið. Júlíus Guðni tók svo upp og vann allt myndefnið fyrir námskeiðið,“ segir Esther.
Hún sagði okkur svo frá því hvernig námskeiðið er uppsett, „Þetta er uppsett þannig að Einar, Óttar, Sigríður og Sigurður fara í myndböndum í gegnum Sturlungu frá því fyrir 1200 og þar til landið missir sjálfstæði sitt árið 1262. Myndböndin, sem eru mislöng, eru alls 46. Sum eru fyrirlestrar, en önnur á samræðu- eða viðtalsformi. Styrkur námskeiðsins, er að þau hafa talsvert ólíkan bakgrunn og nálgast efnið á ólíkan hátt. Þau eru heldur ekkert alltaf sammála, sem gerir námskeiðið enn skemmtilegra. Sagnamennskan er í fyrirrúmi á öllu námskeiðinu,“ segir Esther.
Hvernig kom þetta til? „Ég hef mjög mikinn áhuga á miðlun þar sem ég er kennari og bókmenntafræðingur í grunninn. Fyrir nokkru fór ég svo að læra menningarmiðlun og þá fékk ég aukinn áhuga á miðlun menningararfs. Ég smitaðist satt best að segja af áhuga pabba á Sturlungu og fór að velta fyrir mér hvernig væri hægt að vekja áhuga á Sturlungu hjá fleirum. Í gegnum árin hafa verið að laðast að pabba og Kakalaskála fólk sem ég kalla gjarnan ,,Sturlungasögufólkið“, en það er fólk sem lifir og hrærist í Sturlungu, því eins og Einar Kárason hefur réttilega bent á er erfitt að komast út úr henni þegar maður er einu sinni kominn inn, jafnvel ómögulegt. Mig langaði til að fanga þekkingu og eldmóð þessa fólks og út frá því fékk ég hugmyndina að vefnámskeiðinu, því þó mér finnist gaman að lesa þá finnst mér alls ekki síðra að hlusta á fólk segja sögur. Svo neita ég því ekki að mér datt í hug að námskeið á borð við þetta myndi auðvelda mér grúskið, sem það hefur það svo sannarlega gert,“ segir Esther, en fyrir hverja er þetta námskeið? „Þetta námskeið er fyrir fólk sem hefur áhuga á að grúska í Sturlungu, bæði þá sem hafa einhverja grunnþekkingu en einnig lengra komna. Það er auðvitað alltaf góð hugmynd að lesa Sturlungu, en taka má fram að námskeiðið hentar líka sérstaklega vel þeim sem hafa gaman af því að láta segja sér sögur,“ Verkefnið fékk styrk frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu árið 2021 segir Esther okkur að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.