„Ýmsar sögur segja má af Sæluvikum góðum“ - Sæluvika Skagfirðinga er hafin
Sæluvika Skagfirðinga var sett í blíðaskaparveðri í gær en athöfnin fór fram í Safnahúsinu á Sauðárkróki. Þá var opnuð glæsileg myndlistarsýning Hallrúnar Ásgrímsdóttur, tilkynnt úrslit í Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga og opinberað hver hlyti fyrstu Samfélagsverðlaun Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem afhent verða í Sæluviku ár hvert framvegis. Nemendur úr Tónlistarskóla Skagafjarðar léku nokkur lög á milli ávarpa.
Það var Sigríður Svavarsdóttir, forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem setti Sæluvikuna og að því loknu tilkynnti Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri um fyrsta verðlaunahafa Samfélagsverðlaunanna. Í máli hennar kom fram að fjölmargar góðar ábendingar hafi borist en að þessu sinni er það Stefán Pedersen ljósmyndari á Sauðárkróki sem hlýtur verðlaunin.
„Stefán hefur í leik og starfi auðgað mannlíf og menningu Skagafjarðar með ljósmyndum sínum, sýningum, þátttöku í íþróttum og félagsmálum íþróttahreyfingarinnar, ábyrgðarstörfum fyrir samfélag sitt, virkri þátttöku í tónlistarlífi og síðast ekki síst náungakærleik sem birtist á svo margvíslegan hátt, m.a. gagnvart eldri borgurum,“ sagði Ásta þegar hún afhenti Stefáni verðlaunin.
Rúnar og Gunnar áttu bestu botnana
Páll Friðriksson tilkynnti úrslit í Vísnakeppni Safnahússins en verðlaunahafar voru þeir Gunnar Rögnvaldsson fyrir bestu vísuna og Rúnar Kristjánsson fyrir besta botninn.
Besti botninn kom frá Skagaströnd frá Rúnari Kristjánssyni sem gefur í skyn að einhverjir kynnu að hafa komið undir í Sæluvikunni og sagðist Páll alls ekki ekki telja það útilokað. Þannig hljómar þá vísan með botni Rúnars.
Ýmsar sögur segja má
af Sæluvikum góðum.
Margur þar sitt upphaf á
undir Nöfum hljóðum.
En kosningavísan sem þótti standa upp úr að þessu sinni kemur frá Gunnari Rögnvaldssyni og fjallar um frambjóðanda sem enn hefur ekki gefið kost á sér en nafni hans var samt mikið haldið á lofti í vetur. Heyrðist það gjarna hjá Heimismönnum sem og í Blönduhlíðinni og nærsveitum og greinilegt að Gunnar er viss í sinni sök.
Bessastaða bragur rís
blakta flögg með tröðum.
Þegar ég og þjóðin kýs
Þórólf á Hjaltastöðum.
Meðfylgjandi eru myndir teknar á þessum fallega sunnudegi, bæði við setningu Sæluvikunnar í Safnahúsinu og aðeins fyrr um daginn af sundlaugagestum á Hofsósi spóka sig í blíðviðrinu.
Feykir óskar Skagfirðingum og nærsveitungum gleðilegrar Sæluviku, hér má skoða dagskrána sem framundan er.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.