Geta ærsladraugar gengið of langt? | Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir kíkti í leikhús
Á fallegu þriðjudagskvöldi var Ærsladraugurinn eftir Noel Coward sýndur í Höfðaborg í uppsetningu Leikfélags Hofsóss undir leikstjórn Barkar Gunnars-sonar. Glaðvært miðasölufólk tók á móti leikhúsgestum og kátt sjoppustarfsfólk seldi ískaldar guðaveigar fyrir sýningu.
Verkið er gamanleikur þar sem mannlegar tilfinningar og breyskleiki fléttast við sögu-þráðinn. Leikurum tekst á gamansaman hátt að gefa leikhúsgestum innsýn inn í breskt yfirstéttarheimili þar sem ærsladraugur leikur lausum hala eftir kvöldstund sem fór eins og ætlast var til... eða hvað!
Leikhópurinn samanstendur af sex leikurum sem ýmist hafa leikið í aldanna raðir eða eru rétt að slíta barnsskónum á sviði. Orkan í leikhópnum einkenndist af samheldni og einbeitingu og gaman að sjá þegar reyndir og óreyndir leikarar ná að hristast saman í eina heild og hverfa aftur um ein 70 ár.
Charles er breskur rithöfund-ur og í tilraun sinni til að kynnast starfi miðla og fletta ofan á þeirri vitleysu, býður hann Madame Arcati í heimsókn. Madame Arcati tekst ætlunarverk sitt og Ærsladraugur endurholdgast og hristir heldur betur upp í hlutunum á heimilinu. Án þess að gefa meira upp um söguþráðinn er alveg óhætt að segja að það er ekkert líkt með að fá sér gæludýr eða fá ærsladraug inn á heimilið! Gæludýr er hægt að temja og siða til en ærsladraugar eiga það til að fara eigin leiðir.
Leikmyndin er með glæsilegra móti og greinilegt að nostrað hefur verið við öll smáatriði. Leikmunir, litasamsetning og heildarútlit leikmyndar er trúverðugt og áhugavert að sjá hvernig leikarar nýta leikmyndina í gegnum verkið. Útsýnið úr gluggunum er skemmtilegt og úthugsað. Það var gaman að sjá hvernig ljósamaðurinn lék sér með ljósin til að gera leikmyndina dýpri. Leikarar nýta allt sviðið, báða sviðsvængina og tekst ótrúlega vel að stækka leikmyndina með því að nýta gólfið fyrir framan sviðið líka. Enda fara ærsladraug-ar um allt – ekki satt?
Búningar, förðun og hár er til fyrirmyndar og sterkir litir nýttir til að draga fram sérkenni leikpersóna eins og til dæmis fiðrið um hálsinn á Madame Arcati, gefur persónunni litríkt og létt yfirbragð, dálítið eins og til að ýta undir að miðillinn er litríkari persóna en heimilisfólk og gestir.
Þá er komið að því sem allir bíða eftir, hvernig tókst leikur-um að blása lífi í persónurnar á sviðinu?
Charles er leikinn af Sig-mundi Jóni Jóhannessyni. Hann er giftur Ruth, yfirstéttarkonu, leikin af Fríðu Eyjólfsdóttur. Leikverkið gerist um miðbik síðustu aldar og augljóst að Ruth er húsmóðirin sem stjanar við Charles, eiginmann sinn, með öllum þeim kreðsum sem því fylgir. Ruth er seinni kona Charles og öllu settlegri en Elvira, fyrri kona hans, eins og á eftir að koma fram síðar. Leikar-ar skila hlutverkum sínum ljóm-andi vel til áhorfenda og ná að skapa skemmtilega stemmingu sín á milli á sviðinu með vandræðagangi og tilheyrandi átökum þegar upp kemur hver ærsladraugurinn er. Það er ekkert endilega auðvelt að lifa í skugga ærsladraugs eins og Ruth blessunin fær að reyna. Fríða nær að túlka einlægni og óöryggi Ruthar ljómandi vel, enda alvön að leika aðþrengdar konur í leikverkum. Sigmundur stendur sig vel sem Charles og sérstaklega þegar hann á í samskiptum við ærsladrauginn og Ruth sína á sama tíma. Þvílíkur vandræðagangur og misskilningur sem honum tekst að koma ljómandi vel til áhorfenda. Allavega hló ég mikið.
Madame Arcati er miðill, leikinn af Ingibjörgu Sólveigu Halldórsdóttur. Charles býður miðlinum í mat undir því yfirskyni að kynna sér miðilsverkin og afhjúpa aðferðir miðilsins í næstu bók sinni. Ingibjörg Sólveig túlkar hlutverk sitt af miklum móð og af skvettuskap. Madame Arcati er stór persónu-leiki og nær Ingibjörg Sólveig að gera persónuna skemmtilega, stórundarlega og ófyrirsjáanlega með kostulegum svipbrigðum, látbragði og ærslagangi eins og henni einni er lagið. Dyntirnir í Ingibjörgu Sólveigu í hlutverki Madame Arcati eru hreint út sagt sprenghlægilegir.
Ærsladraugurinn, sem Sæunn Hrönn Jóhannesdóttir túlkar, svífur um sviðið í leit að uppgjöri og hverju? Sæunn er greinilega í réttu hlutverki því persónusköpun hennar á Elviru, fyrri konu Charles, er stórkostleg og litrík. Hún er frábær ærsladraugur og gaman að sjá svipbrigðin og hvernig hún notar allt sviðið og svæðið fyrir neðan sviðið til að sýna fram á að ærsladraugar eru ekki allir það sem þeir eru séðir.
Nýjustu leikarar í leikfélagi Hofsóss eru engir aukvisar miðað við þá reyndari. Stefán Óskar Hólmarsson og Heiðdís Líf Jóhannsdóttir eru hreint út sagt glæsileg á sviði. Þau leika læknahjónin Bradman lækni og frú Bradman og að auki leikur Heiðdís Líf Edith vinnustúlku. Stefán Óskar og Heiðdís Líf eru afar trúverðug hjón og greinilegt að ýmislegt hefur gengið á í þeirra sambandi. Þau skila bæði frá sér áhugaverðri persónusköpun. Bradman læknir er yfir-stéttarlæknir og mikils metinn af hjónunum Charles og Ruth og tekst Stefáni Óskari vel upp með að sýna yfirstéttarsnobbið sem persóna hans býr yfir. Heiðdís Líf leikur hina óstöðugu og ráðríka læknisfrú. Báðir leikarar stóðu sig með prýði og skiluðu hlutverkum sínum vel.
Edith vinnustúlka, leikin af Heiðdísi Líf virðist hafa lítinn tilgang innan um yfirstéttina en kemur þó sterk inn, þó ekki sé nema til að sýna fram á tíðarandann í verkinu. Heiðdís Líf leikur Edith vel þar sem hún er lítt sjáanleg, eins og vinnustúlkur á þessum tíma áttu að vera, en kemur svo skemmtilega á óvart þegar líður á verkið.
Ég mæli hiklaust með að allir skelli sér á Ærsladrauginn og eigi góða og skemmtilega kvöldstund í Höfðaborg með Leik-félagi Hofsóss. Verkið skilur leik-húsgesti ekki eftir í þungum þönkum en allavega upplifun á góðri kvöldstund, hlátur og skemmtilega samveru. Ærsladraugar eru glettnir og stríðnir en geta þeir gengið of langt? Það er spurning sem vert er að velta fyrir sér.
Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir
- - - - -
Lokasýning á Ærsladraugnum verður í Höfðaborg þann 19. apríl kl. 22:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.