Yfir 200 manns mættu á opnunarhátíð búminjasafns
Mikið fjölmenni var við opnunarhátíð búminjasafns að Lindabæ í Sæmundarhlíð sl. sunnudag. Talið er að rúmlega 200 manns hafi heimsótt safnið þennan dag. Það er Sigmar Jóhannsson, sem margir Skagfirðingar þekkja sem Simma póst, sem stendur að þessu safni og er það hans einkaframtak.
Í sýningarsalnum eru yfir 20 dráttarvélar, flestar uppgerðar. Á loftinu sem er yfir hluta salarins eru svo ýmis tæki sem tengjast bústörfum, svo sem ljábrýnsluvél, lúðvíksherfi, fjárvigt, hverfisteinar, ísasleði, hestakerra og taðkvörn.
Lindabær er við veg nr. 762, og eru vegamótin þar sem beygt er út af Króksbrautinni, það er veginum milli Sauðárkróks og Varmahlíðar, merkt Sæmundarhlíð. Sýningin verður fyrst um sinn opin frá 13:00-17:00 alla daga, fram til 15. ágúst.
Meðfylgjandi myndir tók Jóhann Sigmarsson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.