Undurfagurt spilerí Ásgeirs og Júlíusar í Sauðárkrókskirkju
Vestur-Húnvetningarnir Ásgeir Trausti og Júlíus Aðalsteinn mættu í Sauðárkrókskirkju í gær og sungu og léku undurfagra tónlist sína af einstakri list. Þetta var í fyrsta skipti sem Ásgeir heldur tónleika á Króknum. Kirkjan var sneisafull og ekki var annað að sjá en kirkjugestir hafi notið frábærs flutnings á lágstemmdum lögum Ásgeirs.
Þeir félagar hófu leik klukkan níu og spiluðu sleitulaust til hálf ellefu. Ásgeir spilaði ýmist á gítara, hljómborð og ... ja, segjum bara trommuheila en Júlíus prjónaði á gítara. Ásgeir flaug hátt í sinni seiðandi falsettu og Júlíus raddaði en samsöngur þeirra félaga er undurfagur. Það voru engin læti. Hljómurinn í kirkjunni var góður, enda í höndum Guðmundar Kristins upptökustjóra Ásgeirs.
Ásgeir er á tónleikaferðalagi um landið, átti að vera í heimsreisu til að fylgja eftir þriðju hljóðversskífu sinni, Sátt (Bury the Moon), en hún kom út bæði með íslenskum textum og enskum. Fyrsta plata Ásgeirs, Dýrð í dauðaþögn (In the Silence), sló eftirminnilega í gegn og ruddi brautina fyrir listamanninn frá Laugarbakka út í hinn stóra heim. Næsta plata, Afterglow, kom því einungis út með lögum sungnum á ensku og var öllu tormeltari en frumburðurinn. Sátt svipar meira til Dýrðar í dauðaþögn, full af fínum lögum sem eru fljót að festast í heilabúi hlustenda.
Á tónleikunum í gærkvöld voru öll lög sungin á íslensku, líka þau lög sem aðeins höfðu verið gefin út á ensku, og þá tóku þeir félagar gullfallegt óútgefið lag. Hvort það sé góð lýsing á tónlist Ásgeirs að kalla hana sálmakennt kirkjupopp – í jákvæðri merkingu – skal ósagt látið en það var einhvernveginn viðeigandi að hlýða á Ásgeir og Júlíus spila lögin sín í Sauðárkrókskirkju í gærkvöldi. Frábær kvöldstund og vonandi koma þeir sem fyrst aftur í heimsókn.
Hér er hlekkur á lagið Myndir sem tekið var upp í Víkurkirkju >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.