Tölvur frá Tengli teknar gagnið í Burkína Fasó
Fyrir rúmu ári síðan, í jólablaði Feykis 2014, var greint frá gjöf Tengils ehf. á Sauðárkróki á tölvum til skóla í Afríku. Tölvum í eigu fyrirtækisins, sem áður höfðu verið í notkun í skólasamfélaginu í Skagafirði, hafði verið skipt út og var sú ákvörðun tekin að gefa þær til hjálparstarfs. Tölvurnar hafa nú verið teknar í gagnið í skólanum Ecole ABC de Bobo í Burkína Fasó.
Feykir sló á þráðinn til Guðnýjar Ragnhildar Jónasdóttur en hún og eiginmaður hennar, Hinrik Þorsteinsson, eru forstöðumenn skólans. Hjónin byggðu skólann upp frá grunni og annast daglegan rekstur hans. Í skólanum eru um 500 börn frá 1. - 8. bekk. Mikil fátækt er á þessu svæði og er skólinn staðsettur í útjaðri fátækrahverfis.
„Við leitum af fátækustu börnunum sem við finnum og þau fá eina máltíð á dag í skólanum. En við tökum venjulega bara eitt barn út hverri fjölskyldu því ef það er einn úr fjölskyldunni sem fær að mennta sig þá getur barnið hjálpað fjölskyldunni síðar meir ef það fær vinnu.“ Hún segir yfirleitt á bilinu fjögur til ellefu börn í heimili og að menntun sé oft eina vonin sem fjölskyldurnar hafa.
Guðný, Hinrik, starfsfólk og nemendur Ecole ABC de Bobo vildu koma á framfæri miklu þakklæti, og segja mikla ánægju og gleði ríkja með tölvugjöfina. Viðtalið við Guðný má lesa í Feyki vikunnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.