Steinullarmótið heppnaðist með glæsibrag
Steinullarmótið í knattspyrnu, ætlað stúlkum í 6. flokki, fór fram á Sauðárkróki nú um helgina. Sunnanstormur setti strik í reikninginn á föstudag og varð til þess að mótið hófst nokkrum tímum síðar en til stóð svo keppendur ættu kost á að skila sér á Krókinn í skaplegu veðri. Boltinn fór að rúlla kl. 15:30 á laugardag í sjóðheitri og skaplegri sunnanátt, um kvöldið var vel heppnuð kvöldvaka í íþróttahúsinu og síðan fór fótboltinn aftur í gang snemma á sunnudagsmorgni.
Það var kannski pínu skúffelsi að hitastigið á sunnudeginum var ekki alveg jafn hlýlegt og spár gerðu ráð fyrir, Krókurinn datt augljóslega með svalari hluta landsins, en veður til sparks var engu að síður hið besta. Vel heppnuðu móti var síðan slitið kl. 16:20 í gær.
Hér að neðan má lesa þakkir frá Helga Margeirssyni mótsstjóra sem birtust á síðu Steinullarmótsins á Facebook.
„Við viljum þakka öllum mótsgestum fyrir komuna, glaðlegt viðmót og allt hrósið en einnig fyrir að hafa haft trú á okkur að halda mótið og gera það vel fyrir allar stelpurnar þrátt fyrir vonda veðurspá, frestun á dagskrá með mjög litlum fyrirvara.
Fyrir utan að við bættum við bíósýningu til að stytta biðina fyrir þá keppendur sem voru þegar mættir stóðst öll dagskrá.
Að endingu viljum við þakka okkar styrktaraðilum, samfélaginu öllu hér í Skagafirði sem enn og aftur stóð saman sem einn maður til að láta allt ganga upp með mjög stuttum fyrirvara og gerðu það allt í sjálfboðavinnu.
Til sigurvegara allra riðla segjum við, til hamingju þið eruð verðugir meistarar, til Hattar sem vann háttvísi-verðlaunin segjum við, takk fyrir að vera til fyrirmyndar allt mótið innan sem utan vallar.
Til allra stelpnanna segjum við, þið voruð frábærar, haldið áfram að æfa ykkur og taka framförum og við hlökkum til að fylgjast með ykkur á vellinum í framtíðinni!
Áfram fótbolti, áfram stelpur!
Fyrir hönd mótsstjórnar og Tindastóls sendi ég ykkur mínar bestu kveðju og ósk um góða ferð heim.
Helgi Freyr Margeirsson“
- - - - -
Hér að neðan má sjá helling af myndum sem blaðamaður Feykis tók á mótinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.