Söngur og gleði í Miðgarði
Það er óhætt að fullyrða að menn hafi tekið á honum stóra sinum á sviðinu í Miðgarði í gærkvöldi. Þar voru samankomnir norðlensku tenórararnir Kristján Jóhannsson, Óskar Pétursson og Árni Geir Sigurbjörnsson og sungu þeir og skemmtu, ásamt Jónasi Þóri undirleikara, fyrir fullu húsi.
Það var Áskell Heiðar Ásgeirsson hjá Viðburðaríkt sem stóð fyrir tónleikunum en falleg sviðsmyndin í Miiðgarði var hönnuð af alkunnri smekkvísi listamannsins Guðbrandar Ægis Ásbjörnssonar hjá Sviðsljósum og eins og geta má sá hann að sjálfsögðu líka um lýsingu.
Söngvararnir stóðu sig með prýði og var efnisskráin fjölbreytt. Ýmist sungu þeir einsöng eða dúetta en í lokin sungu þeir allir saman. Oftar en ekki voru þetta lög eða aríur sem salurinn þekkti vel til. Króksarinn Árni Geir fékk frábærar viðtökur hjá áheyrendum fyrir söng sinn og Óskar Pétursson frá Álftagerði var samur við sig, en auk fallegs flutnings á lögum eins og Caruso og Bikarinn, þá hitti hann ekki síður í mark á milli laga með nokkrum vel völdum orðum. Undirleik fyrir tenórana þrjá annaðist Jónas Þórir af snilld og átti, líkt og Óskar, nokkra góða spretti milli laga.
Stórstjarna kvöldsins var þó að öðrum ólöstuðum Akureyringurinn Kristján Jóhannsson sem var í miklu stuði í Miðgarði. Hann renndi sér í gegnum nokkur þrekvirkin af fítonskrafti og tilfinningu og sló hvergi af. Síðasta lag fyrir hlé var Hamraborgin og ekki er ólíklegt að einhverjar sprungur hafi myndast í veggjum Miðgarðs – enda er rödd Kristjáns náttúruafl, styrkurinn með ólíkindum.
Í síðustu tveimur lögum fyrir uppklapp sungu Óskar og Árni Geir dúett í Ég er kominn heim og punktinn fyrir ofan i-ið setti síðan Kristján þegar hann söng Nessum Dorma og ætlaði þá þakið nánast af húsinu. Þeir hófu síðan allir saman söng í uppklappinu með Volare og enduðu Kristján og Óskar síðan tónleikana með flutningi á Sigling inn Eyjafjörð til heiðurs sérstkökum boðsgestum Óskars, hinum síungu eyfirsku tenórum, þeim Ingva og Hreiðari. Þeir góðvinir geystust síðan upp á svið og þökkuðu tenórunum fyrir frábæra kvöldskemmtun.
Nokkra athygli vakti frekar óhefðbundið tenóradress Kristjáns; flottur jakki, stífpússaðir skór og þvældar gallabuxur. Óskar var að sjálfsögðu með a.m.k. þrjár mismunandi skýringar á þessu. Í fyrsta lagi hafði ungstirnið Árni Geir fengið ráða klæðnaði þeirra félaga og fór fram á að menn mættu töffaralegir. Í öðru lagi þá hafði kona Kristjáns ekki verið heima og stórtenórinn ekki kunnað á þvottavélina. Í þriðja lagi þá höfðu buxurnar hreinlega gleymst heima.
Nei, leiðindin voru ekki með í Miðgarði í gærkvöldi – svo mikið er víst!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.