Skutlaði sér í ískalda ána við Sauðármýrina
Til að forða sér frá þunglyndi sumardagsins fyrsta, í ljósi vetrarbyls og ofankomu á dagins, brá Benedikt Lafleur á það ráð að skutla sér í ískalda ána við Sauðármýrina á Sauðárkróki. Í samtali við Feyki sagði hann baðið hafa reynst svo frískandi og slík sáluhjálp að hann sé alvarlega að spá í að endurtaka böðin á hverjum morgni að loknum leikfimisæfingunum.
Benedikt Lafleur hefur verið frumkvöðull í að breiða út sjóböð á Íslandi og hefur unnið árum saman að rannsóknum um áhrif sjóbaða á heilsuna og hvernig er hægt að virkja þau áhrif í heilsuferðaþjónustu og vinnur að MA-verkefni í þá veru við Háskólann á Hólum.
Þess má geta að Benedikt Lafleur ætlar að vera með kynningu á sjóböðum fyrir byrjendur og lengra komna, heilsugildi þeirra og sögu, sem og leiðsögn við smábátahöfnina við Siglingaklúbbsaðstöðuna kl. 11 sunnudaginn, 3. maí.
Áhugasömum er bent á að mæta með handklæði og yfirhafnir og tryggja sér far eftir sjóbað í heitt bað á eftir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.