Sjö marka tryllir sem endaði með sigri Tindastóls

Tindastóll og Leiknir Reykjavík mættust í bráðfjörugum fótboltaleik á Sauðárkróksvelli í dag. Kjöraðstæður voru til knattspyrnuiðkunar, stillt veður og mátulega hlýtt til að leikmenn gætu sýnt góða takta og vel færi um áhorfendur. Lokatölur í leiknum urðu 4-3 fyrir Tindastól en í hálfleik var jafnt 2-2.

Leikurinn fór fjörlega af stað og má nánast segja að varnir beggja liða hafi verið eins og gatasigti framan af leik. Strax á 4. mínútu gerði Seb Furness í marki Stólanna sjaldséð mistök, sendi boltann á Leiknismann sem renndi boltanum til hægri á Kristján Pál Jónsson sem afgreiddi knöttinn af miklu öryggi í markið framhjá svekktum Seba. Tindastólsmenn drifu sig í sókn og fengu hornspyrnu sem Björn Anton skallaði í netið og í leiðinni skullu höfuð hans og Edda félaga hans í vörn Tindastóls, saman og lágu báðir dágóða stund. Bæði lið fengu slatta af góðum færum næsta hálftímann, Atli Ödda setti til dæmis boltann í þverslánna, en eftir 36. mínútna leik varð Eddi að hverfa af velli vegna höfuðhöggsins og kom Loftur Páll inn í staðinn. Hann lenti strax í basli eftir að Stólarnir töpuðu boltanum á eigin vallarhelmingi og Ólafur Hrannar Kristjánsson skoraði laglega. Enn svöruðu Stólarnir hratt og örugglega því á 38. mínútu slapp Ingvi Hrannar inn fyrir vörn gestanna eftir að hafa fengið hælsendingu frá félaga sínum og Ingvi setti boltann af öryggi í fjærhornið.

Tindastólsmenn voru sterkari á upphafsmínútum síðari hálfleiks og strax á 49. mínútu skoraði Elvar Páll eftir að hafa fengið stungusendingu frá Jordan Branco inn fyrir vörn Leiknis. Staðan orðin 3-2 og nú bökkuðu heimamenn aðeins og sóttu á skyndisóknum. Leiknismönnum gekk illa að skapa sér færi en fengu talsvert af hornspyrnum sem heimamenn vörðust af harðfylgi. Þegar leið á síðari hálfleik reyndu gestirnir hvað þeir gátu til að jafna og ýttu leikmönnum framar á völlinn. Þá opnaðist vörn þeirra og á 88. mínútu náði Chris Tsonis loks að nýta sér mistök í vörn Leiknis, komst á auðan sjó og þrumaði boltanum í markið. Staðan 4-2 og sigur Tindastóls svo gott sem í höfn. Eitt mark til viðbótar leit dagsins ljós en dæmd var vítaspyrnu á Tindastólsmenn eftir að boltinn hrökk í hönd varnarmanns eftir hornspyrnu. Hilmar Árni Halldórsson minnkaði muninn úr vítinu en Stólarnir voru klókir og héldu boltanum á vallarhelmingi gestanna þangað til dómarinn flautaði til leiksloka. Lokatölur 4-3.

Sigurinn var Stólunum dýrmætur, ekki síst í ljósi þess að Þróttur hafði sigrað Hauka kvöldið áður og voru því komnir með 11 stig líkt og Tindastóll. Nú er okkar menn með 14 stig eftir 12 umferðir og í 8.-9. sæti ásamt Selfyssingum. Margir leikmenn Tindastóls áttu góðan leik í dag; Atli Arnarson var góður, Beattie duglegur og Elvar Páll drjúgur. Vörn Stólanna stóð vel fyrir sínu í síðari hálfleik og fékk þá meiri hjálp frá miðjumönnunum. Lið Tindastóls er að spila góðan fótbolta og byggir á bráðefnilegum heimamönnum sem eru studdir af vel spilandi og snörpum aðkomumönnum. Fín blanda. Gaman var að sjá að leikmenn létu ekki á sig fá að lenda tvívegis undir í leiknum, unnu sig strax til baka og voru síðan klókir eftir að þeir komust yfir. Leiknismenn voru frískir framan af leik og sköpuðu sér slatta af færum en lentu í basli eftir að þeir lentu undir í byrjun síðari hálfleiks.

Næsti leikur Tindastóls er gegn Völsungum á Húsavík næstkomandi laugardag og miðvikudaginn þar á eftir kemur lið Þróttar Reykjavík í heimsókn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir