Seinni sýning „Það er að koma skip“ í Miðgarði í kvöld - myndir
Önnur sýningin af tveimur af söngleiknum, Það er að koma skip, sem leikhópurinn Frjósamar freyjur og frískir menn frumsýndi fyrir fullu húsi í Höfðaborg á Hofsósi sl. sunnudag, fer fram í Menningarhúsinu Miðgarði kl. 20:30 í kvöld. Höfundur söngleiksins er Anna Þóra Jónsdóttir frá Vatnsleysu en lög við texta hennar semur enginn annar en Geirmundur Valtýsson.
„Þetta gamaldags söngleikur með léttu ívafi til að minna á söguna í kringum okkur. Hann gerist árið 1780 þegar skip kemur óvænt í Kolkuóshöfn og inn í þetta fléttast hin ýmsu ævintýr sem að í dag við sjáum við bara í sjónvarpi,“ sagði Anna Þóra um söguþráðinn í samtali við Feyki en sagan gerist einnig í sveitinni í kringum Kolkuós, Viðvíkursveitinni.
Æfingar hófust í lok mars og segir Anna Þóra Guðbrand Ægi Ásbjörnsson hafa verið þeim innan handar og leiðbeint þeim í nokkur skipti, að öðru leyti hefur Anna Þóra annast leikstjórn.
„Að þessu leikverki stendur skemmtilegt fólk hérna úr sveitinni, Viðvíkur- og Hólahreppi, Óslandshlíð og Blönduhlíð og þrír vestan Vatna - alls 27 leikendur,“ segir hún.
Miðasala fer fram við inngang. Aðgangseyrir er 2000 kr. og vakin er athygli á því að ekki er tekið við greiðslukortum.
Blaðamaður Feykis leit inn á æfingu skömmu fyrir frumsýning. Þar var svo sannarlega glatt var á hjalla og skemmtu allir sér vel við að setja þennan þrælskemmtilega söngleik á svið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.