Sauðburðarvakt RÚV í Syðri-Hofdölum mælist vel fyrir-Myndir

Það hefur vart farið fram hjá landsmönnum að sauðburður stendur nú sem hæst í Syðri-Hofdölum í Skagafirði. Síðan um hádegi í gær hefur áhorfendum RÚV gefist kostur á að fylgjast með „burði í beinni, en útsendingunni er stýrt af Gísla Einarssyni frétta- og dagskrárgerðarmanni. Blaðamaður Feykis brá sér í Hofdali í gærkvöldi til að fylgjast með þessari viðamiklu útsendingu á bak við tjöldin.

Að sögn Gísla sækir þetta uppátæki innblástur til svokallaðs „slow tv“ hjá norska sjónvarpinu, sem hann kýs að kalla hægvarp upp á íslensku. Hugmyndin að því að taka sauðburð fyrir er hins vegar orðin til hjá Gísla og kollegum hans.

Mikið er umleikis fyrir útsendingu af þessu tagi, sem Gísli telur að sé sú lengsta samfellda í sögu RÚV en hún stendur í sólarhring og lýkur um hádegi í dag. Var tökuliðið komið í Syðri-Hofdali um miðjan dag á miðvikudaginn. Í útsendingarbílnum, sem flytur meðal annars með sér nokkurra metra hátt mastur, geta stjórnendur útsendingar fylgst með fjórum mismunandi fjórum mismunandi myndavélum og skipta á milli að vild.

Fjöldi lamba hefur komið í heiminn í beinni það sem af er útsendingunni. Bíldótti hrúturinn Beinn lét fyrstur sjá sig, örskömmu eftir að útsending hófst. Lögmál náttúrunnar kærir sig kolllótt um beinar útsendingar og því hefur mátt sjá erfiðan burð, lamb drepast í fæðingu og ýmislegt sem aflaga getur farið en góðu heilli hefur burðurinn að mestu gengið vel fyrir sig.

Ýmsum viðtölum við bændur og búalið er skotið inn í útsendinguna, sem þó gengur að miklu leyti út á að sýna sjónarhorn „flugu á vegg.“ Gísli segir Syðri-Hofdali hafa orðið fyrir valinu þar sem þar er stórt bú og góð aðstaða og ekki síst bændur sem voru til í að aðstoða við þetta tímamóta uppátæki. Gísli kvaðst afar ánægður með móttökur þeirra og ekki síður frábær viðbrögð áhorfenda en samskiptamiðlar eins og twitter og facebook voru að miklu leyti undirlagðir #beinfraburdi í gær og þar tjáðu sig margir þakklátir sjónvarpsáhorendur.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir