Réttarstörf gengu greiðlega

Úr Selnesrétt. Mynd: Gunnar Rögnvaldsson.
Úr Selnesrétt. Mynd: Gunnar Rögnvaldsson.

Gunnar Rögnvaldsson sendi Feyki þessa myndasyrpu úr göngum og réttum á Skaga. Við leyfum okkur að vitna í skemmtilega fésbókarfærslu Gunnars: „Gangnamenn í útheiði hittust heldur seinna en venjulega á Hraunsselinu gangnadagsmorgunn og stóð á endum að úrfelli næturinnar var þess vegna að mestu liði hjá.“

„Allmörg ár eru síðan farið var að skipta göngum þar, en Hraunsselið hefur yfir sér nokkra dulúð því síðasti ábúandinn, einsetukona Guðrún að nafni lést með sviplegum hætti er hún reyndi að komast inn í bæinn niður um strompinn eftir að loka hafði fallið fyrir bæjardyrnar að vetri til er hún var úti við gegningar. Var mál manna að hún hafi séð til barna gera sér þetta að leik og ætlað að leika eftir. Þetta var laust fyrir aldamótin 1900 þegar byggð í Skagaheiði var að mestu aflögð.

Allnokkur belgingur var á móti sem auðveldaði rekstur og leit og súldargusur trufluðu lítt. Fór svo að til réttar kom fleira fé en mörg undangengin ár enda vissulega fjölgað heldur á bæjunum og gróðurfar ákaflega gott. Réttarstörf gengu greiðlega með aðstoð burfluttra og gesta.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir