Opnun Bútasaumssýningar í Kakalaskála - myndir
Bútasaumssýning sjö vinkvenna var opnuð í dag, sumardaginn fyrsta. Sýningin opnaði kl. 14 og stendur til kl. 17 en þegar hafa margir lagt leið sína í Kakalaskála í Kringlumýri, í Skagafirði, til að bera augum þá flottu sýningu þar hefur verið sett upp.
Vinkonurnar sjö, Anna Kristinsdóttir frá Hjalla, Anna Pála Þorsteinsdóttir á Sauðárkróki, Helga Friðbjörnsdóttir í Varmahlíð, Ingibjörg Sigfúsdóttir í Álftagerði, María Guðmundsdóttir í Kringlumýri, Svanhildur Pálsdóttir á Stóru-Ökrum og Þórdís Friðbjörnsdóttir í Varmahlíð, hafa haldið saman öflugan bútasaumsklúbb í 20 ár og er sýningin í raun afmælissýning. Þetta er í annað sinn sem þær stöllur eru með sýningu en áður héldu þær sýningu í Minjahúsinu Sauðárkróki árið 2005
„Upphaf klúbbsins má rekja til þess að við fórum allar á bútasaumsnámskeið til Helgu sem var lengi handmenntakennari í Varmahlíðarskóla. Allar kolféllum við fyrir bútunum svo ekki varð aftur snúið, höfum haldið hópinn síðan með Helgu sem guðmóður klúbbsins. Það er nauðsynlegt að vera í svona góðum félagsskap, hann gefur svo mikið,“ segja þær stöllur í viðtali við Feyki sem kom út í vikunni.
Sýningin verður opin frá kl. 14-17 dagana 23.-27. apríl; 1.-3. maí og 9.-10. maí. Einnig er hægt að hafa samband við Maríu í síma 865 8227 ef annar tími hentar betur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.