Nýr keppnisvöllur vígður á Hólum - Myndir

Mikill fjöldi fólks lagði leið sína að Hólum í Hjaltadal í góðu veðri sl. laugardag, að lokinni Laufsskálarétt, til að bera augum þær framkvæmdir sem þar hafa farið fram í tengslum við Landsmót hestamanna sumarið 2016 og fyrir Háskólann á Hólum.
Það voru skipuleggjendur Landsmóts sem buðu heim að Hólum og hestamannafélögin í Skagafirði báru á borð girnilega kjötsúpu og lifandi tónlist ómaði um reiðhöllina. Þá mátti heyra mikinn fögnuð úr nýju áhorfendabrekkunum er fulltrúar hestamannafélaganna í Skagafirði, sem senn verða sameinuð í eitt, riðu ásamt nýkrýndum heimsmeistara í tölti, Kristínu Lárusdóttur, inn á nýjan keppnisvöll með fána í hönd. Föguðurinn hélt áfram þegar Magnús Bragi Magnússon frá Íbishóli tók fyrsta sprettinn á vellinum á Birtu frá Laugardal en hún er hæst dæmda hrossið í Skagafirði þetta árið, með einkunnina 8,82 í hæfileikum.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, og Lárus Ástmar Hannesson, formaður Landssambands hestamanna, fluttu stutt ávörp en í máli þeirra komu m.a. fram þakkir til þeirra sem staðið hafa af uppbyggingu svæðisins, ekki síst fulltrúa Háskólans á Hólum og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Þá lögðu þeir áherslu á að með hagstæðu miðaverði í forsölu sé lögð áhersla á að Landsmót sé viðburður fyrir alla fjölskylduna. Þess má geta að miðasalan er í fullum gangi á landsmot.is og tix.is.
Blaðamaður Feykis smellti af meðfylgjandi myndum í Hjaltadalnum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.