Menningarsjóður KS úthlutar 26 styrkjum
Í gær, 18. júní, var úthlutað styrkjum úr Menningarsjóði KS. Að þessu sinni hlutu 26 aðilar styrki til ýmissa menningartengdra verkefna, sem flest tengjast Skagafirði eða nærsveitum. Það voru Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri og Bjarni Maronsson stjórnarformaður KS sem önnuðust úthlutunina en þeir eru í stjórn Menningarsjóðsins, ásamt Ingu Valdísi Tómasdóttur, Efemíu Björnsdóttur og Einari Gíslasyni.
Í máli sínu sagði Þórólfur að það væri forréttindi fyrir fyrirtækið að geta orðið að liði í sínu samfélagi og þakkaði um leið fyrir það þróttmikla starf sem unnið er í héraðinu, sem er að miklum hluta er unnið í sjálfboðastarfi.
Allir geta sótt um styrk í sjóðinn en stundum hefur sjóðurinn sjálfur frumkvæði af úthlutunum. Eftirtaldir aðilar hlutu styrki, röðin er tilviljanakennd og segir ekki til um upphæðir styrkjanna:
- Sveitarfélagið Skagafjörður
Fjárstuðningur til að gera minnismerki um Hannes Pétursson skáld, sem ráðgert er að koma upp á Nöfunum. - Leikfélag Sauðárkróks
Fjárstuðningur við störf leikfélagsins sem starfað hefur að krafti um langt árabil. - Leikfélag Hofsóss
Fjárstuðningur við starfsemi leikfélagsins sem hefur verið öflugt undangengin ár. Verkefni ársins er frumsamið og nefndist „Sveitapiltsins draumur eða bara martröð“. Næsta sýning er áætluð fyrsta vetradag. - Guðbrandsstofnun
Fjárstuðningur við starfsemi Guðbrandsstofnunar á Hólum en stofnunin heldur úti markvíslegri menningarstarfsemi og þá ekki síst með sumartónleikum á Hólum. - Páll Sigurðsson
Viðurkenningu fyrir störf sem höfundur Árbóka Ferðafél. Íslands um Skagafjörð. Ferðafélagsbækurnar um Skagafjörð er góð og aðgengileg kynning á héraðinu, jafnframt því að vera fræðandi og skemmtileg lesning.
Við afhendinguna sagðist Páll ánægður að hafa tekið að sér skrif Árbókar Ferðafélagsins en tvær af þremur eru útgefnar. „Það gleður mig að skrif mín hafi þýðingu fyrir Skagfirðinga. Héraðið er mér afskaplega kært,“ sagði Páll í þakkarorðum sínum. - Skrautmen
Fjárstuðningur við handverksfyrirtækið Skrautmen í Skagafirði, til að taka þátt í markaðssýningu í New York í ágúst nk. En sýningin er ein stærsta lífsstíls og hönnunarsýning í Bandaríkjunum. - Frímúrarastúkan Mælifell
Fjárstuðningur til að koma upp lyftu í húsnæði félagsins að Borgarflöt 2. Húsið er meðal annars notað til tónleikahalds, fyrir veislur og fl. - Barrokksmiðja Hólastiftis
Fjárstuðningur við Barokksmiðju sem gengst hefur á undanförnum árum fyrir Barokkhátíð á Hólum, en hátíðin verður að þessu sinni 25.-28. júní. - Sigurður Sigfússon og Ingibjörg Hafstað
Fjárstuðningur vegna útgáfu bókar um Önnu P. Þórðardóttur. Heiti bókarinnar verður „Lífsins skák.“ Anna er Skagfirðingur og hefur verið fötluð alla tíð og segir bókin frá lífshlaupi hennar og þeim erfiðleikum er fötluð manneskja þurfti að búa við á sinni lífsleið. - Félagið Á Sturlungaslóð
Fjárstuðningur til að endurútgefa bókina á Sturlungaslóð er gefin var út 2003, en hefur verið ófáanleg undangengin ár. Bókin var upphaflega gefin út á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga og Hólaskóla. Bókin er prídd myndum og teikningum Jóhannesar Geirs listmálara. - Viðburðarríkt ehf.
Fjárstuðningur vegna fyrirhugaðrar tónlistarhátíðar er þeir nefna „Drangey Music festival- þar sem vegurinn endar.“ En tónlistarhátíðin verður 27. júní n.k. á Reykjum á Reykjarströnd. - Topphestar
Fjárstuðningur við störf Topphesta ehf. Fyrirtækið hefur rekið reiðskóla fyrir börn og fullorðna í yfir 30 ár. - Kiwanisklúbburinn Drangey
Fjárstuðningur við verkefni klúbbsins sem í vetur gekst fyrir fjáröflun til kaupa á „speglunartæki“ er nýtist við skimun í leit að ristilkrabbameini. - Styrktarsjóður Jóhanns B. Sigurbjörnssonar
Fjárstuðningur við frjálsíþróttamanninn Jóhann Björn Sigurbjörnsson en hann hefur náð góðum árangri í frjálsum íþróttum. - Lummudagar í Skagafirði
Fjárstuðningur við héraðshátíðna Lummudagar í Skagafirði er haldin verður 25.-27. júní nk. Lummudagar hafa verið að festa sig í sessi sem héraðshátíð. - Félag harmóníkuunnenda í Skagafirði
Fjárstuðningur við sýninguna „ Mannstu gamla daga“ um 70 félagsmenn er í félaginu hér í Skagafirði. - Kakalaskáli
Fjárstuðningur við framkvæmdir við fjórða áfanga uppbyggingar sýningarrýmis í Kakalaskála. Kakalaskáli er vaxandi stoppustaður ferðamanna er fara um Skagafjörð en þar endurómar þættir úr sögu Sturlunga. - Samgönguminjasafn Skagafjarðar
Fjárstuðningur við áframhaldandi uppbyggingu Samgönguminjasafnsins að Stóragerði í Skagafirði. Safnið nýtur vaxandi vinsælda. - Kvæðamannafélagið Gná
Fjárstuðningur við Kvæðamannafélagið sem er áhugamannafélag. Stuðningur til að halda kvæðanámskeið og annar stuðningur við starfsemina. - Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. „Úr tímans ranni“
Markmið verkefnisins er að taka upp á myndband viðtöl við Skagfirðinga sem komnir eru á efri ár og kunna vel að segja frá. Viðmælendur verða valdir með það að markmiði að þeir kunni að segja frá þeim tíma sem fæstir þekkja í dag og er framandi uppvaxandi kynslóðum. - Skagfirska kvikmyndaakademían
Fjárstuðningur til að halda sumarskóla, hér er um að ræða samstarfsverkefni Fjölbrautaskóla N.vestra, Skotta Film, Baltasar og Lilju á Hofi. - Hrossaræktarsamband Skagafjarðar
Fjárstuðningur til kynningar á íslenska hestinum í Skagafirði. - Varmahlíðarskóli, Árskóli og FNV - „Þjóðleikur“
Fjárstuðningur við samstarfsverkefni skólanna sem meðal annars felast í að efla leiklist á landsbyggðinni. - Grundarhópurinn
Fjárstuðningur við menningarhátíðina „Listaflóð á vígaslóð“ er halin verður aðra helgi í júlí. - Tónleikar með barnalögum fyrir börn og fullorðna. „Frá Aravísum til Alladíns“. Fjárstuðningur til að efna til tónleika í haust í Miðgarði þar sem flutt verða barnalög nokkurra kynslóða. Flytjendur verða tónlistarfólk á öllum aldri úr Skagafirði.
- Skíðadeild Tindastóls
Menningarsjóður KS hefur ákveðið að veita Skíðadeild Tindastóls fjárstuðning til áframhaldandi uppbyggingar á skíðasvæðinu. Skíðasvæðið hefur notið vaxandi vinsælda og nú eru uppi áform um stór átak í uppbyggingu svæðisins.
Um leið og Viggó Jónsson staðarhaldari skíðasvæðisins þakkaði fyrir styrkveitinguna sagðist hann vonast til að geta hafist handa við næsta áfanga uppbyggingar á skíðasvæði Tindastóls sem fyrst sem er skíðaskáli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.