Lummudagar settir í bongóblíðu
Skagfirskir Lummudagar eru haldnir hátíðlegir um helgina og fór setningarhátíðin fram í rjómablíðu við Sundlaug Sauðárkróks í gær. Veitingahúsið Drangey bauð upp á fiskisúpu og var keppt í strandblaki og farið í minigolf. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var gleðin við völd og skemmtu börn jafn sem fullorðnir sér vel.
Í dag, föstudag, verður hægt að fara í loftbolta á grasfletinum á móti íþróttavellinum og sápuboltinn verður á sínum stað í Ártúninu kl 15:30.
Slegið verður upp partýi í sundlaug Sauðárkróks kl. 19:30 og eiga allir að mæta í fötum.
Kvöldið endar svo á VSOT tónleikum í Bifröst, Villtir svanir og tófa, en þar koma saman ,“gamlir“ tónlistarmenn til að skemmta sjálfum sér og öðrum. Þetta er orðinn árviss viðburður og á orðið sinn fasta aðdáendahóp.
Íbúar eru hvattir til að vera með götugrill kl. 19 og eiga góða stund með nágrönnunum sínum annaðhvort á föstudeginum eða laugardeginum.
Formleg dagskrá laugardagsins hefst kl. 14 með götumarkaði við Aðalgötuna á Sauðárkróki, lummukeppnin verður sunnan við safnaðarheimilið kl. 14:30 og eru þeir sem ætla að taka þátt beðnir að koma með a.m.k. þrjár lummur fyrir dómnefndina.
Wally fjöllistamaður mætir á svæðið kl. 15:30 og leikur listir sínar og hægt er að skella sér í paintball og lazertag á grasfletinum á móti íþróttavellinum.
Deginum lýkur síðan með tónlistarhátíðinni Drangey Music Festival á Reykjum á Reykjaströnd þar sem Emiliana Torrini, Jónas Sig. og ritvélar framtíðarinnar, Contalgen Funeral, Magni Ásgeirs. og Úlfur Úlfur stíga á svið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.