Litríkir og lokkandi ljósastaurar

Það var hátíðarbragur yfir Blönduósbæ þegar blaðamaður Feykis átti þar leið um sl. föstudag. Sólin var hátt á lofti, landsmótsfánar blöktu og víða mátti sjá skrautlega og litfagra ljósastaura sem vöktu athygli. Þær Magdalena Berglind Björnsdóttir og Erna Björg Jónmundsdóttir eru driffjaðrirnar í þessu prjónagraffverkefni svokölluðu.

„Það er búið að skreyta langleiðina út Húnabraut, Árbraut og á brúnni. Við reiknuðum með sautján staurum í upphafi og ég held við náum alveg að skreyta þá alla, og út Húnabrautina að auki, fyrir Húnavöku,“ sagði Berglind sem var að sauma utan um einn staurinn þegar blaðamanni bar að.

Hún sagði hugmyndina hafa kviknað fyrir síðustu Húnavöku eftir að hafa hrifist af verkum ReykjavikUndergroundYarnstormers, prjónagraffarahóp í Reykjavík.

„Mér fannst þetta svo rosalega flott. Ég var búin að sjá fyrir mér hvað það væri gaman að skreyta þessa aðalgötu hérna og leiða fólk að Kvennaskólanum þar sem þessi mikla handverksarfleifð er. Ég fór með þessa hugmynd til Jóhönnu Pálmadóttur á Textílsetrinu en þá var rétt að smella í Húnavöku, þannig að það var eiginlega of seint til þess að gera það almennilega. Hún sagði við mig: „Mundu bara eftir þessu eftir ár, talaðu við mig þá“.“

Nú eru þær farnar af stað af krafti. „Við auglýstum og þátttakan hefur farið fram út björtustu vonum,“ sögðu þær en hópurinn hittist í Kvennaskólanum á miðvikudagskvöldum og hafði komið saman þrisvar sinnum. Næsti fundur er í kvöld kl. 20 og eru allir velkomnir.

Berglind og Erna Björg eru í viðtali í Feyki sem kemur út í dag.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir