Líf og fjör á fjölmennu Króksmóti Tindastóls
Króksmót Tindastóls og FISK Seafood, sem ætlað er fótboltastrákum í 5., 6. og 7. flokki, hófst í morgun á Sauðárkróksvelli. Blautt var en stillt framan af morgni en uppúr hádegi lét sú gamla gula ljós sitt skína og yljaði leikmönnum og foreldrum sem hvöttu sína menn óspart áfram.
Stemningin var hin besta og mótið fjölmennt í ár en 106 lið voru skráð til leiks og þátttakendur um 800 talsins. Kvöldvaka var nú undir kvöld (en ekki hvað) og mátti heyra gleðihróp og söng um allan bæ frá vallarsvæðinu.
Boltinn heldur áfram að rúlla á morgun en mótinu lýkur seinni part sunnudags eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Veðurspáin er svipuð og fyrir daginn í dag en þó sennilegt að farið verði sparlega með sólargeislana í Skagafirði.
Ljósmyndari Feykis tók nokkrar myndir á vellinum í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.