Leikskólinn Ársalir öðlast sjálfstæði í SMT skólafærni

Selma Barðdal Reynisdóttir afhendir Önnu Jónu Guðmundsdóttur SMT-fánann. Ljósm./BÞ
Selma Barðdal Reynisdóttir afhendir Önnu Jónu Guðmundsdóttur SMT-fánann. Ljósm./BÞ

Það var hátíðarstund á leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki  fimmtudaginn 17. september þegar SMT-fáninn var dreginn að húni í tilefni þess að skólinn öðlaðist sjálfstæði í svokallaðri SMT skólafærni. Við tilefnið voru sungin lög, börn sýndu leikþátt til að útskýra út á hvað SMT skólafærni gengur og boðið var upp á hressingu.

„Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og með því að samræma vinnubrögð starfsfólks,“ sagði Selma Barðdal Reynisdóttir, uppeldis- og sálfræðiráðgjafi Svf. Skagafjarðar, þegar hún útskýrði í hverju SMT skólafærni felst.

Ársalir er þriðji leikskólinn í Skagafirði sem öðlast sjálfstæði í SMT skólafærni en markmiðið með skólafærnihlutanum er að skapa gott andrúmsloft í skólanum og tryggja öryggi og velferð barnanna.

„En til þess að leikskóli geti orðið sjálfstæður SMT leikskóli þá þarf löng og ströng vinna að eiga sér stað. Fyrir það fyrsta þarf að vera vilji og áhugi á vinnustaðnum og svo þarf einnig að mennta hluta starfsmannahópsins í þessum fræðum til þess að hægt sé að hefjast handa.“ Selma sagði þetta langa og stranga ferli ekki alltaf átakalaust.

„Þetta er stór og fjölmennur vinnustaður og heljarinnar vinna að koma sömu skilaboðunum til allra. En þetta hefur engu að síður gengið allt saman vel og á starfsfólk heiður skilinn fyrir mikið og gott vinnuframlag ásamt jákvæðni, sem er algerlega í anda SMT,“ sagði Selma áður en hún afhenti Önnu Jónu Guðmundsdóttur leikskólastjóra SMT- fánann. Hátíðin fór fram á báðum skólastigum Ársala.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir