Hryssa synti í Lundey og aftur til baka
Sá fágæti atburður átti sér stað í gær að hross synti út í Lundey í Skagafirði og aftur í land. Líklegt er talið að hryssan hafi verið í hestalátum og verið í graðhestaleit handan Héraðsvatna en straumurinn það sterkur að hann hreif hrossið með sér til sjávar.
Hryssan var í hólfi í Garði í Hegranesi og telur Jón Sigurjónsson að hún hafi ætlað yfir Vötnin og í Vatnsleysu en straumurinn skolað henni niður í sjó. Þá hafi hryssan tekið sundsprett og tekið land í Lundey, sem er lítil eyja í botni Skagafjarðar, um 2-3 kílómetra frá landi. Ekki var stoppað lengi í eynni svo hryssan stökk í sjóinn á ný og synti í land upp í fjöru Garðssandsins.
Smá fróðleikur um Lundey:
Lítil eyja og láglend, öll grasi gróin. Töluvert æðarvarp er í eyjunni. Einnig er þar mikið lundavarp. Aðrir varpfuglar í eyjunni eru fýll, teista, grágæs, svartbakur og toppönd. Hrafn verpti þar áður fyrr en það varp er nú aflagt. Grágæsir nota eyjuna sem náttstað auk þess sem nokkur hundruð gæsir fella þarna fjaðrir. Í eyjunni hefur verið lundatekja frá fornu fari. (Aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2009-2021)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.