Hagnaðist um rúma tvo milljarða
Hagnaður varð á rekstri KS á árinu 2014 sem nam 2.129 millj. kr. samanborið við 1.704 millj.kr árið 2013. Þetta kemur fram í ársskýrslu Kaupfélagsins sem tekin var fyrir á aðalfundi KS sem haldinn var í Selinu, matsal Kjötafurðastöðvar KS á Sauðárkróki, laugardaginn 18. apríl sl.
Í inngangsorðum ársskýrslu KS, sem Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri ritar, segir að rekstur fyrirtækisins á árinu 2014 hafi verið hagfelldur. Heildarvelta þess var tæpir 27 milljarðar, sem er lækkun um 1,5 milljarða frá fyrra ári. Lækkunina segir Þórólfur stafa af minni veltu í sjávarútvegi þar sem togarinn Örvar SK-2 var seldur í upphafi árs og togarinn Málmey SK-1 var frá veiðum síðustu fjóra mánuði ársins vegna breytinga.
Jafnframt segir hann samdrátt í sölu kjötafurða, þar sem stór kaupandi sem keypt hefur um 500 tonn af afurðum í sláturtíð undanfarin ár, hafi ekki gengið ekki frá kaupum á árinu. Eigið fé samstæðunnar í lok ársins 2014 nam 24.394 millj. kr.
Í skýrslunni segir að stærstu verkefni og fjárfestingar hjá samstæðunni 2014 hafi verið uppbygging þurrkstöðvar á vegum FISK-Seafood hf. á Sauðárkróki, sem lauk nú í byrjun árs 2015 og breytingar á togaranum Málmey SK-1 úr frystitogara í ferskfisktogara. Þá var samið um nýsmíði á togara fyrir FISK-Seafood í Tyrklandi.
Fram kemur að markaðir fyrir sjávarafurðir hafi verið nokkuð góðir og afsetning gengið mjög vel. Þá voru markaðsaðstæður fyrir kjöt erlendis svipaðar og 2013. „Kaupfélag Skagfirðinga hefur lagt verulega fjármuni og vinnu í að afla markaða fyrir kjöt erlendis á undangengnum árum. Margt bendir nú til að þetta fari að skila sér í vaxandi sölu á næstu árum,“ segir Þórólfur í skýrslunni.
Ennfremur segir að eigið fé fyrirtækisins sé 23,7 milljarðar og eiginfjárhlutfall því um 68%. Nettóskuldir eru jákvæðar um nærri 6 milljarða, efnahagur móðurfélags er með eiginfjárhlutfall um 75%. „Efnahagur er því góður og rekstur að skila góðum afköstum. Að geta fjárfest verulega á síðustu árum en lækka jafnframt skuldir má telja til forréttinda. Félagið hefur því góða stöðu til að takast á við ný verkefni og bæta og endurnýja tækjabúnað,“ segir Þórólfur.
Ljósmyndir tók Örn Þórarinsson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.