Góð skemmtun á Sæluviku - svipmyndir frá frumsýningu

Leikfélag Sauðárkróks frumsýndi gamanleikinn Barið í brestina sunnudaginn 26. apríl sl. eftir Guðmund Ólafsson. Leikstjóri er Þröstur Guðbjartsson. Sýning fór fram með glæsibrag, gestir skemmtu sér vel og mátti heyra hlátraskellina óma um salinn frá upphafi til enda.

Mikil eftirvænting var í Bifröst, bæði á meðal leikenda baksviðs og sýningargesta í salnum þegar kom að stóru stundinni. Leikritið gerist á einum degi á sambyggðu heilbrigðisstofnuninni og elliheimilinu Lífsvon þar sem starfsmenn og vistmenn taka á móti Velferðarráðherranum sem vill endilega fá að skoða magaskoðunartæki stofnunarinnar.

Leikarar sýndu flotta takta á sviðinu. Kristján Örn Kristjánsson var einstaklega skemmtilegur í hlutverki Þangbrands kokks, Gísli Þór Ólafsson fór á kostum í hlutverki velferðarráðherra, Guðbrandur J. Guðbrandsson sem Guðgeir, Anna Rún Austmar sem Natasja læknir, svo maður nefnir nokkra en allir stóðu þeir sig með prýði. Góð skemmtun sem óhætt er að mæla með.

Blaðamaður Feykis tók meðfylgjandi myndir á frumsýningardag, bæði baksviðs fyrir sýningu og að sýningu lokinni.

Sýningarnar eru tíu talsins, fram að 10. maí og fer þriðja sýningin fram í kvöld. Sýningarplanið er eftirfarandi:

  • 3 sýning fimmtudag 30/4 kl. 20
  • 4 sýning föstudag 1/5 kl. 17
  • 5 sýning sunnudag 3/5 kl. 20
  • 6 sýning þriðjudag 5/5 kl. 20
  • 7 sýning fimmtudag 7/5 kl. 20
  • 8 sýning föstudag 8/5 kl. 23 (miðnætursýning)
  • 9 sýning laugardag 9/5 kl. 17
  • LOKASÝNING sunnudag 10/5 kl. 20

Miðaverð er 2500 kr. Miðaverð fyrir hópa, eldri borgara og öryrkja 2200 kr. Miðasala er síma 849 9434.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir