Fyrsta júdómótið á Sauðárkróki í meira en áratug - myndir

Vormót Tindastóls í júdó fór fram í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki sl. laugardag en um var að ræða fyrsta júdómótið á Sauðárkróki í meira en áratug. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem nýja júdógólfið var notað í fullri stærð en það var keypt í haust eftir vel heppnaða peningasöfnun júdódeildarinnar á meðal fyrirtækja, stofnana og einstaklinga á Sauðárkróki.  

Samkvæmt fréttatilkynningu voru keppendur á Vormótinu alls 31, á aldrinum 7 til 12 ára, og komu frá JR í Reykjavík, Pardus á Blönduósi, Draupni á Akureyri og Tindastóli. Áður en mótið hófst var haldin sameiginleg æfing allra keppanda þar sem tekist var á í glímu og farið í ýmsa júdóleiki. Keppendum var svo boðið upp á heita súpu eftir æfinguna.

Á mótinu var keppendum skipt upp í tíu flokka eftir stærð, getu og aldri. Flestir kepptu því tvær glímur og fengu allir verðlaun að lokum.

„Keppendur stóðu sig mjög vel og var enginn skortur á flottum tilþrifum á júdógólfinu, áhorfendum til mikillar skemmtunar. Eftir mót var keppendum síðan boðið í grill áður en þeir héldu saddir og sælir heim á leið eftir frábæran júdó-dag,“ segir í tilkynningu.

„Að lokum vill stjórn Júdódeildar Tindastóls koma á framfæri þökkum til styrktaraðila mótsins og allra sjálfboðaliðanna gerðu þetta mót að eins vel heppnuðum viðburði og raun bar vitni.“

Ljósmyndir/Magnús Hafsteinn Hinriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir