Erfitt útkall í Hjaltadal
Síðastliðinn mánudag fengu björgunarsveitirnar í Skagafirði og Eyjafirði, sjúkraflutningamenn á Sauðárkróki ásamt Landhelgisgæslunni boð um slasaðan göngumann á Hjaltadalsheiði. Hafði hann hrasað í brattri skriðu í fjalllendinu. Strax var ljóst að um mikið og erfitt verkefni væri að ræða og því var mikilvægt að undirbúa sig vel.
Skagfirðingarnir fóru inn Hjaltadalinn og Eyfirðingarnir á móti þeim inn Hörgárdalinn. Skyggni var slæmt í Hjaltadalnum og því ekki hægt að nýta þyrluna til leitar og ferjaði hún því leitarmenn eins nálægt slysstað og mögulegt var. Göngumaðurinn fannst eftir stutta leit og var hann við ágætis heilsu miðað við aðstæður. Var hann fluttur á sjúkrahús með þyrlunni.
Útkallið tók í heildina um átta tíma. Aka þurfti talsverða vegalengd og ganga um 20 km. 54 björgunarsveitarmenn tóku þátt í útkallinu frá sex björgunarsveitum, Skagfirðingasveit Sauðárkróki, Gretti Hofsósi, Flugbjörgunarsveitin Varmahlíð, Súlur Akureyri, Dalbjörg Eyjafjarðarsveit og Björgunarsveit Dalvíkinga, að viðbættum starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og sjúkraflutningamönnum.
„Það má segja að þetta verkefni leystist eins vel og hægt var að vona og eins og oft áður sannaði það sig að það er mikilvægt að geta treyst á félagann og viljum við þakka þeim sveitum sem fóru í útkallið með okkur ásamt Landhelgisgæslu og sjúkraflutningamönnum fyrir gott samstarf,“ segir í tilkynningu frá Skagfirðingasveit inni á FB síðu þeirra.
/SHV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.